Samfylkingin

Eins og ég hef oft sagt áður þá kaus ég Samfylkinguna í síðustu kosningum til Alþingis. Ástæðan var sú að ég taldi að ég ætti mesta samleið með þeim flokki, eftir að hafa kynnt mér rækilega stefnumál allra flokka og velt málunum fyrir mér fram og til baka. Svo gerist það, eins og ég hef líka tjáð mig um, að flokkurinn kemst í ríkisstjórn og þá var allt í einu engin þörf á því að framfylgja stefnumálunum. Þeim var svo að segja öllum ýtt til hliðar í geðshræringunni og ofsakætinni sem fylgdi því að fá nú loksins að vera með í að stjórna. Flokkurinn flaut síðan steinsofandi alla leið út í skurð með Sjálfstæðisflokknum og vaknaði í raun ekki fyrr en upp úr áramótum þegar menn áttuðu sig loksins á því að það væri engin leið að vinna með Geir Haarde og félögum. Það var náttúrlega allt of seint til að maður geti með góðu móti fyrirgefið sofandaháttinn.

Nú er Samfylkingin komin í stjórn með VG og ekki er annað að sjá en forysta flokksins sé býsna ánægð með það samstarf. Báðir formennirnir hafa t.a.m. lýst áhuga á því að halda samstarfinu áfram eftir kosningar.

En ýmsir hafa sett spurningamerki við hið góða samkomulag sem sagt er að ríki milli flokkanna, því eins og allir vita er stefnuskrá þeirra um margt ólík. Til dæmis er himinn og haf milli afstöðu þeirra til ESB.

Að vísu held ég að ég fari rétt með að VG hafi samþykkt fyrir sitt leyti að leggja það mál í dóm þjóðarinnar, ég man ekki hversu fast var að orði kveðið þegar sú yfirlýsing var sett fram, en hvað sem því líður þá er það allavega skref í rétta átt. Sé það rétt munað hjá mér.

Þrátt fyrir yfirlýsingar af þessu tagi verður að segjast eins og er að það er afskaplega ólíklegt að Evrópumálin komist á dagskrá fyrir alvöru á næsta kjörtímabili, komist VG til valda. Málflutningur þungavigtarmanna í flokknum, Ögmundar, Jóns Bjarnasonar og fleiri, hefur allavega verið með þeim hætti að undanförnu að það kæmi mér a.m.k. mjög á óvart ef þeir settu ESB málin í forgang Smile.

Síðast í dag las ég grein eftir frambjóðanda VG í Suðurkjördæmi sem fann ESB allt til foráttu og lagði á það ríka áherslu að kjósendur yrðu að gera veg VG sem mestan í næstu kosningum - til að varna því að gengið yrði til aðildarviðræðna við ESB! Hreint ótrúlegur málflutingur, en samt sem áður ansi skýr skilaboð til forystu Samfylkingarinnar.

Samfylkingin hlýtur að mínu viti að þurfa að velta öðrum samstarfskostum en VG fyrir sér, sé það enn helsta stefnumál flokksins að sækja um aðild að ESB. Ef flokkurinn ætlar sér að leggja það til hliðar eftir kosningar, rétt eins og síðast, þá vil ég gjarnan fá að vita það fyrir 25. apríl.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Soffía Valdimarsdóttir

Það er nú vandinn stóri hjá Samfylkingunni, þau eru ein með ESB stefnuna. En þýðir eitthvað að banka upp á gjaldþrota? Er þetta ekki tómt mál að tala um eins og stendur? Æ ég veit ekkert um þetta!

Soffía Valdimarsdóttir, 16.4.2009 kl. 20:50

2 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Þá ekki ég svosem, en mér finnst alveg sjálfsagt að skoða hvað er í boði. Það getur ekki skaðað okkur .

Heimir Eyvindarson, 16.4.2009 kl. 21:37

3 identicon

Ég hef ekki heyrt annað en að forysta VG sé tilbúin að láta þjóðina greiða atkvæði um ESB. Það er sanngjarnt og lýðræðislegt að fara þá leið, þó svo að stefna flokksins sé að fara ekki inn í ESB, það er þá þeirra hlutverk að sannfæra þjóðina að það sé óheillaskref, en þjóðin taki samt ákvörðun. Í mínum huga kemur ekkert annað til greina en samstarf þessara tveggja flokka eftir kosningar.

Njörður (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 22:06

4 Smámynd: Heimir Eyvindarson

Ég er sammála því Njörður, að það er sanngjarnt og lýðræðislegt að láta þjóðina kjósa um ESB. Ég fagna því að VG hafi það á stefnuskrá sinni, þrátt fyrir að flokkurinn sé andsnúinn aðild. Það liggur við að ég segi að það sé stórmannlegt. Ég set hinsvegar spurningamerki við það hversu hratt þessir hlutir muni ganga fyrir sig, fari svo að flokkarnir haldi áfram samstarfi. Í ljósi mikillar andstöðu við ESB-aðild innan VG. Hef ákveðinn grun um að Evrópumálin verði a.m.k. ekki sett í neinn forgang.

Arndís Soffía Sigurðardóttir, sem skipar 2. sætið á lista VG í Suðurkjördæmi, segir t.d. í grein í síðustu Dagskrá að VG sé eini raunhæfi kostur þeirra sem andvígir eru ESB. Það má vissulega halda því fram að þetta komment hennar sé slitið lítillega úr samhengi hjá mér, en engu að síður eru þetta skýr skilaboð. 

Heimir Eyvindarson, 18.4.2009 kl. 00:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband