Vinir Hannesar....

...Hólmsteins standa fyrir fjársöfnun til styrktar meistaranum. Í auglýsingu frá þessum einbeittu hjarðmönnum segir m.a.: .......að styðja þurfi fjárhagslega við bakið á Hannesi Hólmsteini: „...þar sem íslenskur auðmaður sækir fast að honum fyrir að hafa nýtt málfrelsi sitt á Íslandi."

Það er nefnilega það! Ég ætla nú ekki að ræða málavöxtu í þrætum Jóns Ólafssonar og Hannesar Hólmsteins, en mér finnst undarlegt að stuðningsmenn Hannesar skuli láta þess getið að fyrst um sinn vanti meistarann 3,1 milljón króna! Það er nefnilega akkurat sú upphæð sem Hannes var dæmdur til að greiða Auði Laxness (að meðtöldum málkostnaði) fyrir ritstuld frá sjálfu nóbelskáldinu.

Varla er Auður Laxness umræddur íslenskur auðmaður, sem sækir fast að honum fyrir að hafa nýtt málfrelsi sitt!

P.s. Ég þori ekki að segja hálfvitar!, af ótta við að vera lögsóttur.


Davíð kaupir ölið

Ég hef allt frá því ég byrjaði að besserwisserast í bloggheimum margoft lýst þeirri skoðun minni að Ísland ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu, ekki af því að mér hugnaðist allt þar á bæ svo óskaplega vel, heldur fyrst og fremst vegna þess að þá gætum við tekið upp Evru - og nýríkir íslenskir athafnamenn hættu þarmeð að ráðskast með blessaða krónuna. Það er margsannað mál að braskarar, þar á meðal bankarnir, hafa leikið sér með krónuna - og útkoman blasir við.

Davíð Oddsson tekur undir með mér Wink, og talar um aðför nafnlausra braskara að krónunni.

Ég spyr: Hvernig væri nú fyrir okkur komið ef Davíð sjálfur hefði ekki slegið leiftursnöggt á fingur allra þeirra sem ræða vildu aðild að Evrópusambandinu í hans valdatíð?  


Hveragerði

Nú hef ég formlega verið Hvergerðingur í u.þ.b. 7 mánuði, og líkar vel. Vissi enda nokkurnveginn við hverju var að búast, hafandi haft hér annan fótinn meira og minna alla mína tíð. En eftir að ég varð formlega Hvergerðingur fór ég ósjálfrátt að fylgjast betur með bæjarmálunum, og ég verð að segja að þar mætti margt betur fara - bæði hjá meirihlutanum og minnihlutanum.

Til dæmis fannst mér lítilmannleg afgreiðsla meirihluta bæjarstjórnar á erindi okkar starfsmanna grunnskólans þar sem við báðum um álagsgreiðslu til lítilsháttar leiðréttingar á kjörum okkar, en sá háttur hefur verið hafður á í fjölmörgum sveitarfélögum. Meirihlutinn afgreiddi tillöguna í raun án nokkurs gildandi rökstuðnings, sem gefur kannski tilefni til að velta fyrir sér í hve miklum metum starfsfólk grunnskólans er þar á bæ.

Eitt af eldfimustu málunum í bæjarmálaumræðunni í vetur hefur verið bygging nýs íþróttahúss, en litla íþróttahúsið sem byggt var af dæmalausri skammsýni á þeim tíma sem ég var hér í skóla er fyrir löngu sprungið. Hugmyndir meirihlutans um að reisa svokallað mjúkhýsi inn í dal hafa ekki hugnast minnihlutanum, og hafa svosem vakið furðu margra. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hér hvort uppblásið íþróttahús er vænn kostur, enda þekki ég málið ekki nógu vel til þess, en ég lýsi furðu minni á því að Hveragerði skuli vera í þeirri stöðu að þurfa að fara með íþróttamannvirki alla leið inn í dal.

Það er eins og enginn ráðamaður hér hafi nokkurntíma hugsað lengra en fjögur ár fram í tímann! Hversvegna í ósköpunum keypti bærinn t.d. ekki gamla hótelið á sínum tíma? Mér skilst að það hafi farið á slikk, en einhverjar pólítískar hártoganir orðið til þess að húsið var ekki keypt! Hótelið er staðsett við aðalgötuna og þar að auki mitt á milli leikskólans og grunnskólans. Sá enginn fyrir sér samfellt skólasvæði á þeim tíma? Fagrahvammstúnið svokallaða, milli grunnskólans og Heilsustofnunar NLFÍ skilst mér að hafi einnig verið falt fyrir lítið fé á sínum tíma, en eitthvert pólítískt þref orðið til þess að bærinn nýtti ekki forkaupsrétt sinn á því landi. Hvað skyldi það land kosta í dag? Væri ekki nær að hafa íþróttahús þar, en uppí dal?

Pólítískt þref er eitthvað það hallærislegasta sem hægt er að hugsa sér, sérstaklega í sveitastjórnum. Í bæjarfélögum eins og Hveragerði á minnihlutinn að leitast við að starfa með meirihlutanum. Þannig hefur hann meiri tök á að hafa áhrif, og um leið aukast líkurnar á málefnalegri umræðu - á kostnað með og á móti þvargs". Auðvitað á að mótmæla kröftuglega ef tilefni er til, og haldgóð rök til stuðnings, en alltof oft verða bæjarmál að hálfgerðum skrípaleik þar sem hver höndin er upp á móti annarri. Sumir virðast m.a.s. keppast við að vera á móti öllu, án haldbærra skýringa. Ekki bara í Hveragerði. Það er eins í bæjarmálunum og í daglega lífinu; maður nær sínum málum trauðla í gegn með gífuryrðum og djöfulgangi, málefnaleg samvinna er mun vænlegri til árangurs.

Hættum að jagast og mótum frekar viturlega framtíðarstefnu, þar sem leitast er við að svara þeirri grundvallarspurningu hvernig bæ við viljum byggja og búa í, og afhenda afkomendum okkar...............

     


Páskatúrinn að baki

Þá er árlegur páskatúr hljómsveitarinnar afstaðinn, við spiluðum á 4 stöðum, 3 böll og eina stutta tónleika, og skemmst er frá því að segja að allt heppnaðist þetta eins vel og hægt er að óska sér. Þeir sem vilja skoða myndbönd úr túrnum og fræðast meira um hljómsveitina geta kíkt á nýja bloggsíðu okkar www.amotisol.blog.is

Gleðilega páska


Verðugur er verkamaðurinn launa sinna

Ég hef starfað sem kennari/leiðbeinandi s.l. 3-4 ár og líkað starfið býsna vel. Svo vel raunar að ég er nú í óðaönn að afla mér réttinda, svo ég verði fullgildur kennari. En eins og ég minntist aðeins á í síðustu færslu hef ég alvarlega verið að velta því fyrir mér upp á síðkastið hvort það er nú nokkur glóra í því.

Mér finnst t.d. grátlegt hvað stéttarfélag okkar er vonlaust batterí. Ég hef borgað félaginu, í formi stéttarfélagsgjalda, u.þ.b. 50 þúsund á ári s.l. 3 ár, eða samtals 150 þúsund krónur. Hvað fæ ég í staðinn? Jú ég fæ t.d. að leigja mér rándýran sumarbústað þegar allir hinir eru búnir að velja sér, eins og ég minntist á í gær, og ég fæ niðurgreiddan kostnað við tannviðgerðir.

Ég spurðist aðeins fyrir um þær reglur í dag og mér skilst að það fúnkeri þannig að fari kostnaðurinn yfir 80 þúsund borgi KÍ 25% þess kostnaðar sem umfram er. Þannig að ef maður borgar 100 þúsund í tannlækningar borgar KÍ 25% af 20 þúsundunum sem umfram 80 kallinn eru! Samtals 5000 krónur, og af þeim þarf maður síðan að greiða skatt! Það er nú öll dýrðin. 

Síðan má ekki gleyma því að stéttarfélagið sér mér fyrir mönnum til að semja um launin mín fyrir mig. Svokallaðri samninganefnd. Ég hef nú fylgst lengi með kjaramálum kennara og fæ ekki séð að þessi nefnd hafi unnið nein stórvirki Sick. Sannast sagna skil ég almenning mjög vel að líta stétt sem velur sér svona fólk til að semja fyrir sig ekki neinum sérstökum virðingaraugum.

S.l. vetur var t.d. ákveðið að nota ekki tækifærið meðan uppsveiflan var enn til staðar, og menn töluðu fremur í milljörðum en krónum, til að leiðrétta kjör stéttarinnar. Nei. Mannvitsbrekkurnar og markaðsfræðingarnir í samninganefnd kennara ákváðu að bíða í eitt ár. Allan þann tíma hafa kennarar verið með umtalsvert lægri laun en sambærilegar stéttir, t.d. leikskólakennarar. Bravó!

Ég gæti lengi haldið áfram að tuða um ágæti" KÍ en ég ætla ekki að gera ykkur það. Ég verð samt að minnast á það að sambandið virðist skorta alla „markaðshugsun". Eitt lítið dæmi í því sambandi er t.d. það að leggja upp í enn einar kjaraviðræðurnar með Eirík Jónsson í broddi fylkingar. Nú er hann eflaust vænsti maður, og flestum öðrum reyndari í kjaraviðræðum, en það breytir bara engu. Fólk er fyrir löngu búið að fá nóg af honum, og ég er þess alveg fullviss að almenningur snýst ekki umsvifalaust á sveif með kennurum næst þegar Eiríkur birtist á skjánum. Því miður. Ekkert illa meint.

Kjaramál snúast nefnilega að svo stóru leyti um almenningsálitið. Það að meirihluti þjóðarinnar sé á móti launakröfum svo stórs hóps sem kennarar eru, eins og of oft hefur komið fyrir, hefur t.d. bein áhrif á það hvaða afstöðu ráðamenn taka. Mér er það t.d. minnisstætt þegar Kjartan Ólafsson þingmaður sunnlendinga steig í pontu á Alþingi í miðri vinnudeilu kennara og fullyrti að kennarar ynnu ekki nema 130-140 stundir á mánuði, meðan annað fólk ynni 200-250 stundir! Slíkt bull er mér til efs að menn leyfðu sér að bera á borð ef meirihluti almennings hefði fullan skilning á stöðu kennara, og tæki afstöðu með þeim.

Svipaðar rangfærslur var að finna í athugasemd góðrar vinkonu minnar við síðustu bloggfærslu mína. Ég lái henni ekki að fara með rangt mál, þegar þingmenn gera það líka. Staðan er einfaldlega þannig að KÍ hefur algerlega mistekist að bæta ímynd kennarastéttarinnar, og virðist vera algjörlega ráðþrota í þeim efnum. Þessvegna þurfum við enn um stund að sitja undir slíkum þvættingi.

Ég er ekki sérfróður í kjaramálum kennara, skeyti raunar lítið um hvað ég hef í kaup. Enda er ég ekki í starfinu vegna launanna, það er klárt! En ég held nú samt að ég viti nokkurnveginn hvernig vinnutíma kennara er háttað. T.d. var ég nýkominn heim úr skólanum í gærkvöldi þegar ég las athugasemd Huldu vinkonu minnar, en það er önnur saga Smile

Án þess að ég ætli að fara í einhverjar hártoganir um það hvort ég skila sama vinnuframlagi og venjulegt fólk ætla ég að reyna að skýra vinnutímann aðeins út. Að svo miklu leyti sem ég skil hann. Þeir leiðrétti mig sem betur vita og þekkja.

Full vinnuvika umsjónarkennara er 43 klukkustundir. Þar af eru að ég held 27 kennslustundir.

Engin yfirvinna er greidd, nema kennari kenni auka kennslustund. Allt annað á að rúmast innan þessara 43 stunda; Undirbúningur og úrvinnsla kennslu, gerð og yfirferð prófa, allir fundir með kennurum eða starfsfólki, foreldrafundir og viðtöl, skemmtanir og undirbúningur þeirra, undirbúningur ferðalaga, endurmenntun og námskeið sem kennarar þurfa að sækja, nemendasamtöl, aðstoð við fjáröflun nemenda, foreldrasamstarf o.s.frv.

Hver kennslustund er 40 mínútur, þannig að kenndar klukkustundir eru samtals 18.

Restin er skilgreind svona:

5,72 klukkustundir í lögbundin hlé s.s. kaffi- og matartíma. Hvorki meira né minna en hjá öðrum stéttum.

9,14 klukkustundir í verkstjórnartíma. Hér er um að ræða viðtalstíma, kennarafundi, starfsmanna- og stigsfundi, fag- og árgangafundi, samstarf fagfólks innan skólans og utan, skráningu upplýsinga, umsjón og eftirlit með kennslurými o.fl.

10 klukkustundir í undirbúning og úrvinnslu kennslu. Mig minnir að þetta sé hugsað þannig að fyrir hverja 40 mínútna kennslustund séu ætlaðar 20 mínútur til undirbúnings og úrvinnslu.  Mörgum finnst það fáránlegt að kennarar þurfi svo mikinn tíma til undirbúnings, en ég segi fyrir mig að ég gæti alveg þegið meiri tíma til að undirbúa og skipuleggja verkefni með krökkunum. Ég er oft fram á kvöld að garfast í einhverju sem viðkemur kennslunni og skipulagi hennar, og þannig er með flesta kollega mína.

Þetta dæmi kemur í raun þannig út að kennari með 25 barna bekk hefur að jafnaði u.þ.b. 5 mínútur á dag fyrir hvern og einn nemanda. Sem hver heilvita maður sér að er allt of lítið.

Venjuleg vinnuvika á Íslandi er 40 klukkustundir. Vinnuvika kennara er 43 stundir, umframstundirnar 3 fara held ég í að jafna út páska- og jólafrí sem margir býsnast yfir. Eins má geta þess að sumarfrí kennara er 8 vikur, ekki 12 eins og margir virðast halda. Yfir sumarið ber kennurum aukinheldur skylda til að sækja endurmenntunarnámskeið. Einhversstaðar sá ég að það ættu að vera 100-150 stundir, ég er þó ekki viss um það. En altént á umræðan um löng frí kennara, hvort heldur um er að ræða sumarfrí eða jóla- og páskafrí, ekki rétt á sér. 

Ég tek það aftur fram að ég er ekki sérfróður um kjaramál kennara, og það er ekki víst að ég fari að öllu leyti með rétt mál í þessum doðranti mínum, en þetta er í það minnsta nærri lagi. Ég ætla heldur ekki að væla undan vonda fólkinu sem býsnast yfir því hvað ég skila litlu vinnuframlagi. Það verður að eiga það við sig. Mér finnst umræðan bara fyrst og fremst eiga að snúast um það í hvernig samfélagi við viljum búa. Viljum við t.a.m. búa í samfélagi þar sem umönnunarstörf eru láglaunastörf? Ég segi nei. Ég vil samfélag þar sem boðið er upp á öflugan skóla, allt frá leikskólastigi og upp úr. Ég vil að gott fagfólk, sem er ánægt í starfi sjái um menntun barna minna.

Það fólk sá ég í grunnskólanum í Hveragerði þegar ég hóf störf þar. Það fólk var ein meginástæða þess að ég ákvað að flytja hingað. Nú er hinsvegar svo komið að flótti er brostinn á í stéttinni, og óánægjan kraumar undir niðri. Ef ekkert verður að gert líst mér ekki á blikuna.   


Takk fyrir mig

Ég hef verið að velta því fyrir mér síðustu daga hvort ég eigi ekki bara að hætta að rembast við að verða kennari. Starfið er jú skemmtilegt, en launin eru lélegt grín. Gömul tugga sem allir þekkja - og eru orðnir leiðir á. En svo eru það allir "litlu hlutirnir" sem létta manni lífið, og halda manni við efnið.

Kennarasamband Íslands, félagið mitt, leggur t.d. sitt af mörkum til að gera mönnum eins og mér starfið ánægjulegra. Nú hefur félagið ákveðið að þeir sem eiga innan við 100 uppsafnaða orlofspunkta (ég er að kenna minn þriðja vetur og á 36 stk.!) fái ekki að velja sér sumarbústaði fyrr en mánuði seinna en hinir. 

Mikið hlakka ég til að geta valið á milli 35m2 kjallaraíbúðar á Larfanesi og 25m2 orlofshúss í Fúlaskarði, með salernisaðstöðu í grennd. 

Takk fyrir mig    

 


Hermann Björgvinsson

Það var hringt í mig frá Spron um daginn. Erindið var að bjóða mér að verða viðskiptavinur bankans. Ég tók nú fremur fálega í það, en spurði þó hvaða kosti það gæti haft í för með sér. Sölumaðurinn var vel undir þá spurningu búinn og gat talið eitt og annað upp, bankanum til ágætis, m.a. það að ég gæti fengið lán með aðeins 17% vöxtum! Ég verð nú að viðurkenna að ég hrökk aðeins við.

Ég er svo lánsamur að borga ekki af neinum lánum nema húsnæðisláni okkar hjónaleysanna, sem ber 4,20% vexti, þannig að ég hreinlega veit ekki gjörla hvað teljast góð kjör á almennum lánamarkaði, en 17% vextir finnst mér altént ansi mikið. En sölumaðurinn geðþekki var nú aldeilis ekki sammála mér, og hélt áfram að reyna að sannfæra mig um að taka þessu kostaboði. Hann fullyrti m.a. að bankar og kortafyrirtæki rukkuðu allt að 25% vexti í einhverjum tilvikum! Svo skal böl bæta.............

Má ég minna á að um miðjan níunda áratuginn var Hermann nokkur Björgvinsson tíður gestur á forsíðum íslenskra blaða, og gjarnan fylgdi viðurnefnið "okurlánarinn" með. Þessi Hermann stundaði það sumsé að lána fólki pening á 18% vöxtum. Það þótti glæpsamlegt, gott ef honum var ekki stungið í steininn fyrir vikið!

 


Fréttir af fólki í héraði

Þó það kunni að hljóma ótrúlega þá er það nú þannig að ég er lítið fyrir að trana mér fram, jafnvel þó ég sé nokkuð öruggur um eigið ágæti og telji mig oftast hafa heilmikið fram að færa Cool

Í starfi mínu sem tónlistarmaður, og ekki síst umboðsmaður, hef ég þó þurft að venja mig á að ota mínum tota, og það hef ég í gegnum tíðina reynt að gera án þess að vera með mikil læti eða djöfulgang. Þegar mikið liggur við blæs maður þó stundum í lúðra, á nótum Einars vinar míns Bárðarsonar, en það er ekki oft.

Eitt af því sem er í mínum verkahring er að láta fjölmiðla vita þegar eitthvað markvert drífur á daga okkar í hljómsveitinni. Fyrir tæpum mánuði síðan lét ég t.d. alla fjölmiðla landsins vita af því að við værum að senda frá okkur nýtt lag, hið fyrsta í rúmt ár, og flestir þeirra létu það berast. Viku síðar sendi ég svo heldur hróðugur út boð þess efnis að lagið væri orðið hið vinsælasta á landinu. Um það var fjallað á öllum helstu prentmiðlum og að sjálfsögðu á útvarpsstöðvunum. Viku síðar áréttaði ég þessa frétt við blöðin hér í sveitinni, Sunnlenska fréttablaðið, Dagskrána og Gluggann, og lét jafnframt vita að lagið væri enn á toppnum. Tvö blaðanna birtu fréttatilkynninguna, og kann ég þeim þakkir fyrir, en eitt blaðanna hefur enn ekki látið þess getið að sunnlensk hljómsveit eigi vinsælasta lag landsins. Sem hlýtur þó að vera frétt. Í það minnsta sunnlensk frétt!

Nú er ég svo heppinn að mér getur í sjálfu sér verið nokk sama hvort þetta tiltekna blað segir frá árangri okkar eður ei, stærri fjölmiðlar hafa sagt frá þessu og hin 2 héraðsfréttablöðin líka þannig að við erum ekkert í vandræðum vegna lítils umtals, en ég velti því samt sem áður fyrir mér hvað búi að baki slíku fréttamati. Er það ekki frétt þegar hljómsveit af svæðinu gerir það gott? Er það minni frétt en að það hafi verið metþátttaka á foreldrafundi á Selfossi eða að fjórir nýsveinar hafi verið verðlaunaðir fyrir góðan árangur í námi, svo dæmi séu tekin?

Það sem gerir þetta kannski enn furðulegra er að þetta ágæta blað hefur í gegnum tíðina sýnt okkur talsverðan áhuga. Nú er það svo að við höfum nokkrum sinnum átt því láni að fagna að eiga vinsælasta lag landsins, og ýmislegt annað markvert hefur gengið á hjá okkur á rúmlega 10 ára ferli, og svo að segja alltaf hefur verið um það fjallað í héraðsfréttablöðunum. Ekki síst þessu tiltekna blaði. 

Mér dettur helst í hug að tengja þessa stefnubreytingu því að við tókum ekki tilboði frá blaðinu í auglýsingu fyrir réttadansleik fyrir margt löngu. Síðan þá hefur að ég held ekki birst stafkrókur um okkur!

Tilviljun?


Frábærir þursar

Þetta er svosem ekki merkileg bloggfærsla hjá mér. Ég má bara til með að segja frá því hvað ég var á frábærum tónleikum í gærkvöldi. Þursaflokkurinn, ásamt Caput-hópnum, héldu mér, og að mér sýndist flestum öðrum gestum Laugardalshallar í gærkvöldi, hugföngnum frá byrjun til enda. Ég set þessa tónleika í flokk allra bestu tónleika sem ég hef farið á. Meira hef ég ekki um málið að segja. Takk fyrir mig Smile .

Handboltinn á niðurleið?

Mér finnst svolítið undarlegt hvernig viðræður HSÍ við þjálfara hafa gengið. Fyrst var rætt við Magnus Anderson, sem gaf afsvar. Ég veit svosem ekkert um þær viðræður, en þvínæst var leitað til þriggja íslenskra þjálfara, Dags Sigurðssonar, Geirs Sveinssonar og Arons Kristjánssonar - í þessari röð.

Ef eitthvað er að marka fréttaflutning fjölmiðla skil ég varla hvernig þeim íslensku datt yfirhöfuð í hug að standa í viðræðum við HSÍ, því af honum má ráða að enginn þeirra hafi haft tíma fyrir starfið. Dagur og Aron gátu ekki tekið starfið að sér vegna skuldbindinga við sín félagslið og Geir var ekki tilbúinn til að fórna dýrmætum tíma með fjölskyldunni fyrir landsliðið. Eflaust eru ástæður þremenninganna þó flóknari en fréttaflutningur gefur til kynna, vonandi a.m.k. Annars hafa þeir hreinlega verið að sóa tíma HSÍ.

Og talandi um HSÍ þá má kannski velta því fyrir sér hvort nægilega vel sé á málum haldið þar á bæ. Ekki það að ég sé einhver sérfræðingur í þeim efnum, síður en svo, en mér finnst eins og það ríki dálítið metnaðarleysi í handboltanum hér á landi. Almennt séð. Hvernig hefur HSÍ t.d. brugðist við þeirri samkeppni sem handboltinn á í við körfuboltann? Oft hefur maður heyrt þjálfara og fleiri lykilmenn í handboltahreyfingunni tala um að það sé afar slæmt hve margir stórir strákar kjósi fremur að æfa körfubolta en handbolta, og sumir hafa m.a.s. gengið svo langt að kenna því um slakt gengi landsliðsins á síðasta stórmóti, þ.e. að við séum svo miklu lágvaxnari heldur en hin liðin. Það er vissulega áhyggjuefni að hávaxnir og sterkir strákar sæki frekar í körfu en handbolta, en það þýðir ekkert að kvarta og kveina yfir því. Væri ekki nær að gera eitthvað í málunum?

Eins og ég benti á áðan er langur vegur frá að ég sé sérfróður um þessi mál, en mér fróðari menn hafa sagt mér að körfuknattleikssambandið sé t.d. mun duglegra í samstarfi við grunnskólana en HSÍ. Sem dæmi má nefna að KKÍ hefur komið svokölluðum minni-bolta inn í íþróttakennslu í grunnskólunum, en þar er notast við lægri körfur og reglurnar eru rýmri. Ég veit ekki til þess að HSÍ hafi gert neitt til þess að gera handboltann meira spennandi fyrir unga krakka, en það kann vel að vera að ég fari með fleipur.

Körfuboltinn er um margt sniðug íþrótt, og hefur óneitanlega margt að bjóða sem erfitt er að keppa við. T.d. geta menn auðveldlega æft sig einir og eins er lítið mál að leika körfubolta utanhúss. Það er því ljóst að það er ekki einfalt mál fyrir handboltann að keppa við körfuna, en það hlýtur að vera hægt að reyna.

Handboltinn er jú einu sinni nokkurs konar þjóðaríþrótt okkar, og klárlega sú boltaíþrótt sem við stöndum fremst í á alþjóðlegum vettvangi. Vissulega er handboltinn ekki eins stór og vinsæl íþróttagrein á alþjóðamælikvarða og körfubolti, að ekki sé minnst á fótboltann, en það breytir því ekki að þetta er viðurkennd íþróttagrein, spiluð um allan heim og keppnisgrein á ólympíuleikum. Margir íslendingar hafa einnig haft af því atvinnu að spila handbolta, meðan einungis örfáir körfuboltamenn hafa gerst atvinnumenn erlendis - svo fátt eitt sé nefnt.  

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti körfubolta, það má ekki túlka orð mín á þann veg, en það er mín skoðun að við ættum að hlúa betur að handboltanum. Hvað sem öllum samanburði líður. Mér finnst óumræðilega skemmtilegt að fylgjast með landsliðinu okkar (þegar vel gengurWink ), og ég veit að stór hluti þjóðarinnar er mér sammála. Sú stemmning sem oft hefur myndast í kringum strákana okkar" er óviðjafnanleg og hefur oftar en ekki stytt þjóðinni stundir í svartasta skammdeginu. Vinsældir handboltans fara aukinheldur vaxandi um allan heim, og því er kannski ennþá súrara að horfa upp á greinina koðna niður hér á landi. Vonandi tekst að snúa þeirri óheillaþróun við, og lykilatriði í þeim efnum er að við eigum áfram öflugt A-landslið karla. Það er líklega ekkert sem eflir áhuga ungra krakka meira en að landsliðið nái góðum árangri á stórmótum. Þessvegna er ábyrgð HSÍ þegar kemur að ráðningu landsliðsþjálfara mjög mikil, og mikilvægt að menn fari ekki á taugum þó nokkrir hafi afþakkað djobbið.   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband