Nýr kjarasamningur

Skrifað var undir nýjan kjarasamning kennara í gær. Í greinargerð með samningnum segir að aðalmarkmið Félags grunnskólakennara hafi náðst, en það var að jafna laun kennara á við sambærilegar stéttir.

Sambærilegar stéttir hafa í rúmt ár haft umtalsvert hærri laun en grunnskólakennarar, gegnumsneitt u.þ.b. 30 þúsund sýnist mér. Samkvæmt samningnum munum við ná þeim launum sem þær stéttir, t.d. leikskólakennarar, hafa núna eftir rúmt ár!

Þetta þýðir gróflega að sambærilega menntaður leikskólakennari hefur haft um 360 þúsundum hærri laun en kennarar s.l. ár, og mun hafa eitthvað hærri laun í 6-12 mánuði til viðbótar hið minnsta.

Hvernig getur það kallast jöfnun á við sambærilegar stéttir?  


Liverpool 1 - Riise 1

Við Sæmundur erum sammála um að það verði einhver bið á því að maður hætti að skrifa noreg með litlum staf. 

Danmörk enn og aftur

Á morgun höldum við í Á móti sól (alltaf skrýtið að segja í á) af stað til Danmerkur þar sem við munum leika á hestamannaballi í Rönde, í nágrenni Árósa. www.gangartscup.dk

Það er mikil stemmning fyrir þessu balli, uppselt í hópferð frá Íslandi og öll íslendingafélögin á Jótlandi og Fjóni búin að skipuleggja sætaferðir, þannig að við hlökkum reglulega til.


Mitt kæra kennarasamband

Ég röflaði um það fyrir rúmum mánuði að reglur orlofssjóðs KÍ væru þannig að ég fengi ekki að velja mér sumarbústað fyrr en 5 vikum eftir að þeir sem hafa verið lengur í félaginu væru örugglega búnir að velja sér bestu bitana. 

Í gær voru þessar 5 vikur loksins liðnar og það fór eins og ég hafði búist við. Það er ekkert laust nema á Larfanesi! Það eina sem er laust á Suðurlandi í sumar er t.d. tveggja herbergja blokkaríbúð á Laugarvatni. Það hljómar gríðarlega spennandi. 

Ætli maður geti sótt um að fá að borga meira í félagið - svona til að sýna smá þakklætisvott?  


Getraun fyrir fertuga!

Eitís nostalgían sem greip mig í síðustu færslu er ástæða þessarar færslu. Ég er búinn að setja eitís lag í spilarann hér til hliðar, og spurningin er: Man einhver hvað það heitir?


Afmæli

Ég er kominn heim frá Barcelona - árinu eldri. Raunar svo gamall að mér vitrari (og ókurteisari jafnvel) menn segja mér að ég sé orðinn gamalmenni - farinn að sjá yfir böltann eins og þeir segja í Skaftafellssýslunni.

Hvað um það. Á slíkum tímamótum skilst mér að venja sé að líta til baka og þakka fyrir allt það góða sem hefur hent mann á lífsleiðinni. Það hef ég gert, takk fyrir mig. Taki það til sín sem eiga Smile.

Að þessari upprifjun minni lokinni ákvað ég að hafa daginn í dag eftir mínu höfði í einu og öllu. Sem gamalmenni sem ólst upp á eitís tímabilinu geri ég ráð fyrir að dagurinn verði c.a. svona:

Fyrst mun ég reyna við töfrateninginn. Ég náði aldrei tökum á honum í þá daga, þó ég hafi einu sinni álpast til að koma honum saman, og ég á svosem ekki von á því að það gangi betur í þetta sinn.  

Rubiks_Cube

Meðan ég reyni við teninginn mun ég hlusta á bæði lögin með Limahl limahl15 

og jafnvel eitthvað með Cindy Lauper CindyLauper 

og Stephen Tintin Duffy tintin

Eftir nokkrar árangurslausar

tilraunir fæ ég mér Soda-stream sodastream

eða RC-kóla rccola_big 

og læt þreytuna líða úr fótunum í Clariol undratækinufótanuddtækið

Í kvöld horfi ég svo á video panasonic_nv8600b

 

t.d. Romancing the stoneromancing

eða fyrstu 128 þættina af Dallas dallas_bobby_pam_

Fyrir svefninn tek ég síðan einn Pac-man pacman kemst vonandi í bananaborðið!

Í nótt mun ég svo væntanlega vakna til að pissa............... 


Hópferð á hestamannaball í Danmörku!

Við félagarnir í Á móti sól erum að fara að spila á hestamannaballi í Danmörku laugardaginn 26.apríl. Það er í tengslum við stórt hestamannamót sem ber heitið Gangarts Cup og er haldið í Rönde, í nágrenni Århus.

Ég var að reka augun í það að Iceland Express og Hestafréttir bjóða upp á hópferð á keppnina - og ballið!

Ferðin kostar 64,900 og innifalið er flug fram og til baka, rúta frá Kaupmannahöfn á mótssvæðið - og til baka, gisting í 2 nætur (1 í Köben og 1 í Århus) og síðast en ekki síst íslensk fararstjórn, en það er enginn annar en folinn Fjölnir Þorgeirsson sem stýrir ferðinni Smile

Nánari upplýsingar eru á vef Express ferða: http://www.expressferdir.is/viewtrip.php?idt=843   


Liverpool....

...vann sætan sigur á Arsenal í kvöld, og mætir Chelsea í undanúrslitum meistaradeildarinnar. Ég velti því fyrir mér hvað spekingarnir sem hafa lítið gert annað í vetur en að hallmæla Liverpool liðinu og mæra Arsenal segja núna. Tala nú ekki um ef svo fer að Liverpool vinnur meistaradeildina - ekki er Arsenal að fara að vinna neitt!

Annars eiga liðin hrós skilið fyrir góða skemmtun síðustu 7 daga, þetta voru allt hörkuleikir og á köflum spiluðu bæði lið flottan fótbolta.

Og talandi um flottan fótbolta. Ég sá athyglisverða grein á www.Kop.is um "skemmtilega Arsenal og leiðinlega Liverpool", en sá söngur hefur verið óvenju hávær í vetur. Í greininni er bent á nokkrar tölulegar staðreyndir, t.d. að Liverpool hefur skorað fleiri mörk í vetur en Arsenal, meðalaldur þessa bráðunga liðs Arsenal, sem Arsene Wenger segist endalaust vera að byggja upp er svipaður og Liverpool liðsins og svo sá punktur sem mér fannst einna merkilegastur: Á þeim tíma sem Wenger hefur verið með Arsenal hefur liðið fengið fleiri gul og rauð spjöld en nokkuð annað lið í Úrvalsdeildinni! Samt gerir hann varla annað en að væla yfir því hvað hin liðin eru gróf, og hvað allir eru vondir við unglingana sem hann er að byggja upp!

Wenger á reyndar hrós skilið fyrir að breyta Arsenal úr einu alleiðinlegasta fótboltaliði veraldar yfir í léttleikandi og á köflum skemmtilegt lið, það ætla ég ekki að taka af honum. En það breytir því ekki að nú stefnir í sjöunda titlalausa tímabil hans - af ellefu alls! Það er nú ekkert sérstakt Wink.


Hvergerðingar ath.

Við félagarnir í Á móti sól spilum á Players, Kópavogi, laugardaginn 19.apríl n.k. og það er gaman að segja frá því að við ætlum að hafa smá "Hveragerðisþema". Frekari dagskrá verður auglýst síðar, en það er hugsanlegt að einhverjir heimsfrægir Hvergerðingar komi fram með okkur. Svo er aldrei að vita nema Kristján Jónsson verði með sætaferðir.

Við erum að kanna möguleika á því að stofna til vinabæjasambands við Kópavog, nánar um það síðar.......


Ég vona innilega...

...að maðurinn sem fann upp á Stöðtvösporttvö sé á góðum launum

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband