Ég ýjaði að því í bloggfærslu fyrir dálitlu síðan að vinsældir tónlistarmanna og hljómsveita væru oft skringilega tilkomnar - jafnvel tilbúnar. Síðan sagði ég ekkert meira, nema meira um það síðar. Og nú er síðar.
Hvernig er hægt að mæla vinsældir íslenskra tónlistarmanna? Og er yfirhöfuð einhver þörf á því? Ég hef svosem lengi verið þeirrar skoðunar að það þurfi ekkert sérstaklega, enda hef ég aldrei elst við að kaupa þá tónlist sem vinsælust er hverju sinni. Vissulega hefur það þó skipt mig máli hvernig gengur hjá minni hljómsveit, og það er fyrst og fremst það sem hefur fengið mig til að velta þessum hlutum fyrir mér.
Með reglulegu millibili les maður á síðum íslenskra blaða, og heyrir jafnvel einnig talað um það á Rás 2, að þessi eða hin hljómsveitin sé gríðarlega vinsæl og það sé með ólíkindum hvað allt gangi vel hjá henni. Í ansi mörgum tilvikum verð ég steinhissa vegna þess að ég hef aðgang að sölulistum og spilunarlistum og eins þekki ég nógu vel til í bransanum til að vita nokkurnveginn hvernig aðsókn hefur verið á tónleika eða böll viðkomandi. Árangur á þeim vígstöðvum gefur sjaldnast tilefni til stórra yfirlýsinga. Hvað er það þá sem liggur til grundvallar því mati að hljómsveitin eða tónlistarmaðurinn sé hreinlega að springa úr vinsældum?
Hvað annað er hægt að mæla? Ekki geta vinsældir, sem fullyrt er í útvarpi og blöðum að séu til staðar, grundvallast á tilfinningu viðkomandi fjölmiðlamanns? Eða hvað? Ég er altént þeirrar skoðunar að eitthvert áþreifanlegt atriði þurfi að vera til staðar. En hvað ætti það að vera?
Í mínum huga er plötusala ágætt tæki til að mæla vinsældir, þ.e. að því gefnu að farið sé eftir þeim leikreglum sem Félag íslenskra hljómplötuframleiðenda (FHF) hefur sett sér og þær ekki aðlagaðar að þörfum öflugra aðila innan félagsins - svipað og gert var með áldisk Björgvins í fyrra. Til upplýsingar fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru þær reglur í grófum dráttum þannig að sala í helstu hljómplötuverslunum og stórmörkuðum landsins er skráð og úr þeim sölutölum er unninn sölulisti sem nefnist Tónlistinn og birtist í Mogganum á fimmtudögum. Það er sá sölulisti sem marktækastur hefur verið undanfarin ár (þó hann sé auðvitað ekki gallalaus), og við hann er miðað þegar FHF tekur ákvörðun um hverjir hljóti gull- eða platínuplötur. Oftast nær a.m.k. .
Lagalistinn er annað fyrirbæri sem FHF stendur á bak við, en þar er um að ræða lista yfir mest spiluðu lög landsins í viku hverri, samkvæmt upplýsingum frá útvarpsstöðvum. Sá listi er um margt ágætur en hann mælir þó ekki vinsældir laga nema upp að vissu marki. Vissulega spila FM957 og Bylgjan mest af þeirri tónlist sem menn á þeim bæjum telja í mestum metum hjá sínum hlustendum hverju sinni, og til þess að meta það gera þessar stöðvar reglulega kannanir meðal hlustenda. Þær kannanir eru þó með þeim annmörkum að þar haka þátttakendur einungis við 30 lög sem stöðvarnar hafa ákveðið að kjósa skuli um. Hlustendur geta ekki kosið lög að eigin vali. En engu að síður hygg ég að spilunarlisti þessara tveggja stöðva sé sæmilega í takt við vilja hlustenda þeirra. Það er þó einungis ákveðin tegund tónlistar sem er spiluð á þessum stöðvum. Groddaleg gítarlög fá t.d. sjaldan eða aldrei spilun á Bylgjunni, jafnvel þó þau njóti vinsælda á FM og Rás 2. Það er hluti af því að útvarpsstöðin hefur sett sér stefnu sem farið er eftir í einu og öllu. Það er hið besta mál, og tryggir að markhópnum svelgist ekki á molasopanum.
Öðru máli gegnir um Rás 2. Þar á bæ er mönnum frjálst að spila hvað sem þeir vilja, burtséð frá óskum hlustenda. Það er sérstaða Rásar 2 að þar getur maður átt von á að heyra lög sem aldrei heyrast á öðrum stöðvum og þar getur maður einnig átt von á því að heyra Álftagerðisbræður strax á eftir Iron Maiden! Oft er þessi sérstaða stöðvarinnar sjarmerandi, en oftast finnst mér hún reyndar til vansa - aðallega vegna þess að ég virðist ekki hafa sama smekk og Popplandsmenn. Smekk manna er að sjálfsögðu ekki hægt að rökræða af neinu viti þannig að þessi skoðun mín hefur því lítið gildi í sjálfu sér. En í grunninn er ég altént dálítið hrifinn af því að það sé til útvarpsstöð sem spilar hitt og þetta og fylgir engri sjáanlegri stefnu. Það getur verið ágætis tilbreyting.
En þessi sérstaða Rásar 2 gerir það að verkum að spilunarlistar þaðan ættaðir segja kannski engin ósköp um vinsældir þeirra laga sem á þá rata. Það er hygg ég ekki hringt inn í hrönnum til að biðja Popplandsmenn að spila B-hliðar lög með Neil Young, en þau eru samt talsvert spiluð vegna þess að fáir ef nokkrir tónlistarmenn eru í meiri metum stjórnenda Popplandsins en einmitt sá annars ágæti Kanadamaður. Eins veit ég mýmörg dæmi um íslensk lög sem notið hafa mikilla vinsælda á Bylgjunni og FM en hafa ekki fengið spilun á Rás 2, eingöngu vegna geðþóttaákvarðana Popplandsmanna. Sem dæmi um slíkt misræmi í áherslum milli stöðva get ég nefnt að lagið Á þig, sem mín ágæta hljómsveit gaf út sumarið 1998, var eitt vinsælasta lag sumarsins á FM og Bylgjunni ( m.a. spilað oftar á Bylgjunni en hið geysivinsæla Farin með Skítamóral) en það var einungis spilað tvisvar sinnum á Rás 2! Þetta tiltekna lag hefur tvisvar síðan notið mikilla vinsælda á Bylgjunni og FM, í rólegri, órafmagnaðri útgáfu, en aldrei fengið viðlíka viðtökur á Rás 2. Þessi litla spilun Rásar 2 á laginu var einvörðungu tilkomin vegna óvildar eins af virtustu dagskrárgerðarmönnum stöðvarinnar í okkar garð.
Ég tek það fram að langt er um liðið og löngu gróið um heilt okkar á milli. Lög okkar fá nú um stundir ágæta spilun á Rás 2 og við höfum ekki yfir neinu að kvarta, t.a.m. áttum við mest spilaða lagið á Rás 2 á síðasta ári. En þetta dæmi, og fleiri sem ég gæti nefnt, sýna það að spilun á Rás 2 þarf ekkert endilega að vera í takt við vinsældir. Rás 2 lýtur einfaldlega öðrum lögmálum en hinar stöðvarnar, og ekkert nema gott um það að segja í sjálfu sér.
Spilunarlistar á borð við lagalista FHF eru þessvegna ekki óbrigðul mælitæki á vinsældir, en gefa þó ákveðnar vísbendingar. T.d. þykist ég vita að til að toppa þann lista þurfi lag að vera í nokkuð góðri spilun á öllum stærstu stöðvunum, en geðþóttaákvarðanir geta gert það að verkum að önnur lög, sem kannski eiga í raun meira upp á pallborðið hjá þjóðinni en topplagið sjálft, ná ekki þeim hæðum sem samræmast raunverulegum vinsældum.
Hvað er þá eftir til að mæla? Aðsókn á tónleika og dansleiki hlýtur að vera vísbending, en erfitt getur verið að mæla slíkt. Ef þú átt góðan vin á blaði er allt eins víst að hægt sé að fá hann til að birta vel heppnaða hópmynd af þeim fáu sem mættu og skrifa frétt um að fjölmargir áhorfendur hafi skemmt sér konunglega. Slíkt umtal er alltaf gott. Tónlistarmenn eru líka andskotanum lygnari þegar þeir eru spurðir um aðsókn. Ég man t.d. eftir einni hljómsveit sem var talsvert í sviðsljósinu fyrir nokkrum árum, en meðlimir hennar fullyrtu kinnroðalaust í hvert skipti sem þeir voru spurðir um aðsókn að það hefði verið uppselt!
Þeir sem lifa og hrærast í tónlistarheiminum vita oftast nokkurnveginn hvernig aðsóknin er hjá keppinautunum en þær upplýsingar liggja hvergi frammi, og berast aldrei til almennings. Ef ég myndi t.d. ljúga því í viðtali að við hefðum fyllt einhverja íþróttahöllina úti á landi þá er ótrúlegt að einhver keppinauturinn sendi frá sér leiðréttingu á þeim rangfærslum. Vitandi það stunda sumir þennan hvimleiða leik, og grandvaralausir fjölmiðlamenn grípa blöðruna á lofti og halda áfram að blása hana upp.
Aðsóknartölur eru sem sagt heldur ónákvæmt mælitæki líka. Allavega er nákvæmni upplýsinga ekki alltaf eins og best verður á kosið. Þá dettur mér ekki mikið meira í hug sem er raunverulega mælanlegt. Einhverjar hugmyndir?
Ef hljómsveit á góða vini sem vinna á fjölmiðlum, tala nú ekki um ef meðlimir sveitarinnar eru sjálfir blaða- eða útvarpsmenn, þá má koma ansi miklu fjölmiðlahafaríi af stað. Margir þeirra tónlistarmanna sem lesa má um á síðum blaðanna og heyrast mærðir í hvívetna í Popplandi hafa lítið unnið sér til frægðar annað en að eiga vini á réttum stöðum. Með endurtekinni umfjöllun um meintar vinsældir viðkomandi rís frægðarsólin hægt og sígandi. En innistæðan er lítil og baklandið ekkert þannig að raunverulegar, áþreifanlegar vinsældir láta oftar en ekki á sér standa. Það selst ekki upp á tónleika þessara sveita, sé vettvangurinn stærri en sem nemur litlu kaffihúsi í 101, og plöturnar seljast ekki í bílförmum. Þrátt fyrir það heldur umtalið áfram, enda gefast félagarnir ekki upp.
Ég vil taka það skýrt fram áður en enn lengra er haldið að þessi skrif mín hafa ekkert með mína hljómsveit að gera. Við erum ekki með í jólaplötuslagnum, og sækjumst ekki sérstaklega eftir því að vera upphafnir í innihaldsrýrum viðtölum eða blaðagreinum. Okkur gengur ljómandi vel. Þannig hefur það verið lengi, aðsókn á böllin yfirleitt góð og síðustu 4 plötur seldar í gull. Það er ekki yfir neinu að kvarta. Það káfar ekkert upp á okkur þó einhverjar hljómsveitir segist vera á barmi heimsfrægðar eða vinsælastar á landinu o.s.frv. Þá eru þær bara í því - þar til blaðran springur .
En það breytir því ekki að mér persónulega leiðist orðið dálítið þessi uppivöðslusemi og eilífar tilraunir til að upphefja eitthvað sem ekki er innistæða fyrir. Tala nú ekki um þegar tónlistarmenn tapa sér í því að upphefja sjálfa sig. Gott dæmi um það er ítarleg grein sem Atli Bollason hljómborðsleikari Sprengjuhallarinnar og tónlistarskríbent á Morgunblaðinu (!) ritar í Lesbók blaðsins s.l. laugardag. Þar greinir hann frá því í löngu máli hvernig frægðarsól Sigur-rósar og fleiri hljómsveita hefur hnigið og vikið fyrir nýrri, ferskari og gáfaðri kynslóð - með Sprengjuhöllina í broddi fylkingar! Máli sínu til stuðnings tínir hann til ýmis falleg ummæli sem birst hafa á prenti um hljómsveitina .
Ég tek það fram að ég hef ekkert á móti Sprengjuhöllinni sem slíkri, hef enda enga sérstaka skoðun á því bandi, en mér blöskrar hve langt umræddur Atli gengur í að upphefja sína eigin hljómsveit. Það finnst mér í besta falli óviðeigandi. Ég hvet alla til að skoða þessa grein vel og vandlega. Hún er ágætlega skrifuð, en ekki síst til vitnis um svo ótalmargt - misgott.
Tilgangurinn með þessum langhundi mínum, sem ég bið þá sem hafa af þrautsegju lesið alla leið hingað niður hér með afsökunar á, er þegar öllu er á botninn hvolft kannski einmitt ekki annar en sá að biðja fólk að temja sér gagnrýna hugsun. Ekki kokgleypa það sem sagt er á síðum blaða eða í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Ekki láta fjölmiðlamenn segja hvað sé í lagi að kaupa og hvað ekki. Hvað sé inn og hvað út. Í aðdraganda jólaplötuflóðsins held ég að það sé þörf áminning.
Tónlist | 14.11.2007 | 00:07 (breytt 5.7.2008 kl. 23:56) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég má til með að minnast á frábæran indverskan veitingastað sem við Auður fórum á í Köben um daginn. Tandoori masala heitir hann og er við Skt. Peters stræde, ekki langt frá Strikinu. Ég hafði heyrt vel af systurstaðnum við Halmtorvet látið, en þar var allt fullt þannig að við prófuðum þennan og sáum ekki eftir því.
Við vorum 8 sem borðuðum saman og hvert einasta okkar var himinlifandi með matinn. Það hljóta að vera meðmæli. Ég gef staðnum allavega hæstu einkunn fyrir matinn, umhverfið er svo aftur annað mál. Í rauninni dálítið sjarmerandi skrýtið. Velbekomme.
Matur og drykkur | 11.11.2007 | 15:55 (breytt 5.7.2008 kl. 23:57) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggar | 11.11.2007 | 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 1.11.2007 | 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Það fór eins og flesta grunaði að Eyjólfi var sagt upp og sá þjálfari sem náð hefur besta árangrinum hér heima hin síðari ár var ráðinn. Alveg án tillits til hvaða mannskap hann hafði undir höndum o.s.frv. Allt frekar fyrirsjáanlegt. Jafnvel hallærislegt.
Mér leist ekkert á þessa ráðningu til að byrja með, en eftir að ég frétti að hann hefði ráðið Pétur Pétursson sem aðstoðarmann hýrnaði heldur yfir mér. Mér líst frábærlega á það. Þar er á ferð hörkunagli sem lætur menn ekki komast upp með neitt múður, og á ágætan þjálfaraferil að baki. Stuttan en glæstan.
Áfram Ísland!
Íþróttir | 1.11.2007 | 17:30 (breytt 5.7.2008 kl. 23:59) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mér hefur oft blöskrað hvað íþróttafréttamenn geta verið dómharðir og meiðandi. Í dag ryðst einn mesti besserwizzerinn í þeirra hópi, Henry Birgir Gunnarsson á Fréttablaðinu, fram á ritvöllinn og fer miður fögrum orðum um Eyjólf Sverrisson landsliðsþjálfara.
Ég get alveg verið sammála Henry um það að ástandið á landsliðinu er ekki björgulegt þessa dagana, og árangur Eyjólfs er hreint ekki glæsilegur. Það vita allir, en mér finnst óþarfi að vera með skítkast á borð við það að engar faglegar ástæður hafi verið til þess að ráða Eyjólf á sínum tíma og það hafi í raun verið algjörlega út í hött! Jafn ómaklegt finnst mér að gera því skóna að leikmenn beri enga virðingu fyrir honum. Hvað veit Henry Birgir um það?
Hvaða faglegu forsendur bjuggu að baki ráðningu Eyjólfs veit ég ekki, enda enginn sérfræðingur í þjálfunarfræðum, en ég geri ráð fyrir að menn hjá KSÍ hafi verið ánægðir með góðan árangur hans með ungmennalandsliðin, auk þess sem menn þar á bæ þekktu mætavel ótvíræða leiðtogahæfileika hans,enda hafði hann verið dáður fyrirliði íslenska landsliðsins og Herthu Berlin um árabil. Ég geri ráð fyrir að KSÍ forystan hafi hugsað með sér að rétt væri að stokka spilin upp á nýtt, eftir heldur dapurt gengi undangenginna landliðsþjálfara, og veðjað á að Eyjólfur bæri með sér ferska vinda. Svo mikið er víst að Eyjólfi er ekki fisjað saman, glæstur atvinnumannsferill er til vitnis um það, og því trauðla út í hött að veðja á slíkan mann. Eða hvað?
Sannleikurinn er sá að allt frá því að Guðjón Þórðarson hætti hefur enginn friður verið í kringum landsliðið okkar. Um leið og eitthvað bjátar á rísa besserwizzerarnir upp á afturlappirnar og byrja að gjamma hver upp í annan, og heimta afsögn! Þetta er farið að minna óþægilega á andrúmsloftið í Englandi, þar sem það virðist alveg borin von að landsliðsþjálfarar fái nokkurn einasta vinnufrið. Ætli englendingar væru ekki betur settir ef þeir hefðu leyft Sven Göran að halda áfram með liðið í stað þess að ráða Steve Mc Claren, sem var fyrst og fremst ráðinn í djobbið vegna gríðarlegrar pressu í enskum fjölmiðlum. Og helstu rökin fyrir ráðningu hans, og að sumu leyti afsögn Sven Görans líka, voru að það væri ómögulegt að hafa útlending sem landsliðsþjálfara! Það yrði að vera englendingur í brúnni! Bíddu....af því að englendingar eru svo frábærir þjálfarar???
Ég ætla rétt að vona að við verðum aldrei svona vitlaus, en mikið óskaplega finnst mér við stundum vera nálægt því. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt að skipta um landsliðsþjálfara núna, en það er algjör óþarfi að ata menn auri með viðlíka hætti og Henry Birgir gerir. Ef menn eru að kalla eftir faglegum vinnubrögðum ættu þeir að fara undan með góðu fordæmi og stofna til faglegrar umræðu.
Mér finnst ekkert galið að gefa Eyjólfi tækifæri í 6-12 mánuði til viðbótar. Verði það hinsvegar ekki niðurstaðan finnst mér skynsamlegast að ráða erlendan þjálfara, og gera við hann langan óuppsegjanlegan samning. Mér dettur Morten Olsen í hug - mér sýnist að hann verði á lausu bráðum. Auðmenn Íslands ættu nú að sjá sóma sinn í því að færa þjóðinni slíkan mann að gjöf.
Íþróttir | 19.10.2007 | 23:29 (breytt 6.7.2008 kl. 00:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fyrr í vikunni vöktu hin annars ágætu íslensku flugfélög athygli mína, enn eina ferðina. Flugleiðir auglýstu sértilboð á flugsætum til og frá ýmsum áfangastöðum sínum, aðeins 9900 krónur með sköttum aðra leið, og Iceland Express svaraði að bragði með auglýsingu sem var eitthvað á þessa leið: Við getum því miður ekki boðið 9900 kr. sértilboð á flugsætum, en bendum á að 7995 er okkar lægsta venjulega verð, aðra leið með sköttum! Mér fannst þetta svosem ágætt hjá þeim enda er ég mjög hlynntur samkeppni í flugi, og tek oftar en ekki afstöðu með Iceland Express sem hafa að mínu viti gert mjög góða hluti fyrir íslenska neytendur á sínum tiltölulega stutta líftíma.
Til að kanna hvað væri verið að bjóða skellti ég mér á veraldarvefinn, hafði reyndar nýverið pantað mér ferð sem ég segi örugglega frá síðar, en ég ákvað að gamni mínu að athuga hvað það kostaði mig að fara í helgarferð til London, bæði hjá Iceland Express og Icelandair. Ég tékkaði á öllum helgum í nóvember og desember, flogið út annað hvort á fimmtudegi eða föstudegi og komið heim á sunnudegi, og það kom í ljós að í nær öllum tilvikum var hagstæðara að fljúga með Icelandair! Tek það hinsvegar fram að það var hunddýrt hjá báðum, yfirleitt milli 30 og 40 þús. á manninn, og stundum ennþá meira!
Ég hef margoft flogið með Iceland Express, og yfirleitt alltaf verið mjög ánægður. Ég hef oftast nær pantað með góðum fyrirvara, eða keypt miðana á útsölu þannig að ég hef fengið þá á góðu verði. Það er þægilegt að fljúga með félaginu og lítið yfir því að kvarta, fyrir utan leiðindaatvik um daginn sem ég hef sagt frá , en ef félagið ætlar að berja sér á brjóst og státa sig með heilsíðuauglýsingum af betra verði en keppinauturinn er þá ekki allt í lagi að hafa eitthvað að bjóða?
Ég tek það fram, svo allrar sanngirni sé gætt, að ef flogið er út á þriðjudegi og komið heim á miðvikudegi er yfirleitt hægt að gera mjög góð kaup hjá express, og reyndar ágæt hjá Flugleiðum líka! Það er samt svona svipað og félagi minn lýsti klámmyndunum á Sýn í gamla daga, ekkert nema hné og olnbogar .
Ferðalög | 14.10.2007 | 18:50 (breytt 6.7.2008 kl. 00:01) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég fer orðið oftar í Bónus en ég gerði. Það stafar aðallega af því að fyrir rúmum mánuði fluttum við fjölskyldan frá Selfossi til Hveragerðis, og í Hveragerði er úrvalið í matvöruverslunum bundið við eina búð: Bónus. Búðin er ágæt sem slík, en ég sakna þess að geta ekki skotist í Nóatún og Fiskbúðina eins og ég gat gert á Selfossi, því matarúrvalið í Bónus er nú satt best að segja ekkert æðislegt. En samt sem áður líður okkur betur í Hveragerði, svo það sé nú á hreinu .
Talandi um fiskbúðina, þá var hér í Hveragerði mjög góð fiskbúð en íbúarnir hafa greinilega ekki verið nógu duglegir að nota sér hana því eigendurnir pökkuðu saman og lokuðu. Því miður.
Annað sem ég sakna frá Selfossi er drykkjarvatnið. Mér skilst að Hvergerðingar fái neysluvatn úr 3 vatnsbólum, misgóðum. Mitt er ábyggilega verst! Og ég sem hélt að hið margrómaða íslenska vatn væri tiltölulega svipað um allt land.........svona er maður nú vitlaus.
En það stóð nú ekki til að eyða þessari bloggfærslu í að bera saman Hveragerði og Selfoss. Fyrir mér er þetta allt sama svæðið, annar staðurinn er bara miklu skemmtilegri, og auk þess talsvert nær Reykjavík .
Þessi bloggfærsla átti satt best að segja alls ekki að vera nein langloka, ég hafði í raun ekkert að segja annað en það að eitt af því undarlegasta sem ég veit er hvað ég stressast oft upp í röðinni í Bónus. Það er líklega ein ástæðan fyrir því að mér hefur aldrei fundist neitt voðalega spennandi að fara í Bónus....? Ég verð alveg sérstaklega stressaður þegar kemur að því að raða í pokana, þá fer ég alveg á taugum! Enda er það iðulega þannig að næsti kúnni er komin í bakið á mér og farinn að bíða eftir því að ég sópi mínum vörum í pokann. Og ég, sem er með ágæta rýmisgreind þó ég segi sjálfur frá, raða eins og óður maður í pokana - yfirleitt lenda viðkvæmu vörurnar neðst og eitthvað brotnar og ég veit ekki hvað og ekki hvað. Finnur enginn fyrir þessu nema ég?
Dægurmál | 6.10.2007 | 10:29 (breytt 6.7.2008 kl. 00:02) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Eins og ég minntist á í færslunni hér á undan fórum við félagarnir í Á móti sól í mini-heimsreisu um helgina. Til stóð að heimsækja 3 lönd á jafnmörgum dögum, spila á einum tónleikum og fara á aðra ,+ allt hitt (út að borða, versla o.s.frv...), þannig að dagskráin var nokkuð þéttskipuð. Svo ekki sé meira sagt. En illu heilli fór vel ígrunduð ferðaáætlunin í vaskinn á fyrsta degi .
Við hófum leik á því að spila fyrir Árna vin okkar á Útlaganum, svokallað gjaldeyrisgigg, á fimmtudagskvöldið. Þegar því var lokið, um klukkan eitt eftir miðnótt, stóð til að leggjast til hvílu í hljómsveitarrútunni meðan hún bæri okkur ljúflega útá flugvöll. Einhver galsi var í mannskapnum þannig að hvílan var heldur minni en til stóð, og því voru menn ansi þreyttir þegar þeir skipuðu sér í innritunarröð Iceland Express uppúr klukkan 5 um morguninn. Eftir nokkra bið var röðin loks komin að okkur en þá fyrst byrjaði gamanið! Okkur var tilkynnt að vélin sem átti að bera okkur til London hefði bilað og því yrðum við að gjöra svo vel að bíða til klukkan 3 eftir hádegi. Þetta voru vægast sagt váleg tíðindi, enda sáum við fram á að hæpið yrði að ná Prince tónleikunum. Auk þess vorum við ansi óhressir með að fá ekkert að vita um þessa breytingu fyrr en við innritunarborðið.
Eftir að hafa reynt allar mögulegar leiðir til að bjarga málunum gáfumst við upp og fengum okkur herbergi á Hótel Keflavík, svona rétt til að ná einhverjum smá svefni fyrir flugið. Þar fengum við höfðinglegar móttökur, frábæran morgunverð og dýrindis herbergi - sem kom okkur í aðeins betra skap.
Flugið sem átti að fara kl. 15.00, fór síðan ekki í loftið fyrr en rúmlega 16 þannig að vonin um að ná tónleikunum var orðin ansi veik. Klukkan 19.42 að breskum tíma lentum við loks á Stansted og þá áttum við eftir að koma farangrinum í geymslu og koma okkur sjálfum á tónleikana, sem áttu að byrja milli kl. 20 og 21. Engin geymsla fannst fyrir farangurinn þannig að við urðum að gjöra svo vel að fara með hann niður á hótel áður en við fórum á tónleikana. Hótelið var við Marble Arch og tónleikarnir í North Greenwich þannig að það var alveg klárt að við myndum í mesta lagi ná uppklappinu. Við ákváðum samt að láta á það reyna og drifum okkur með miklum látum í lestina til North Greenwich, en þegar út úr henni kom mættum við glöðum tónleikagestum sem streymdu í þúsundum út úr höllinni. Þá bölvuðum við Iceland Express - og það ekki í fyrsta skipti þennan daginn.
Heldur súrir fórum við heim á hótel, sem var bæ ðe wei 4 stjörnu lúxushótel við Oxford stræti sem við splæstum á okkur til að gera ferðina sem þægilegasta , og fórum í háttinn.
Í bítið morguninn eftir lá leiðin út á Gatwick flugvöll, þaðan sem við flugum til Hamborgar með German Wings flugfélaginu. Sú flugferð var ósköp notaleg. Eftir að hafa komið okkur fyrir í gestahúsinu á búgarðinum þar sem við áttum að skemmta um kvöldið drifum við okkur niður í bæ að skoða fjölbreytt mannlífið. Þetta er í annað skiptið sem hljómsveitin spilar í Hamborg og það er ekki hægt að segja annað en borgin sé stórskemmtileg. Miðbærinn er býsna fallegur og við höfum hitt á mjög góð veitingahús í bæði skiptin, sem er ótvíræður kostur . Núna fengum við t.d. dýrindis steik á Block House, fyrir þá sem eru á höttunum eftir góðu steikhúsi í Hamborg
. Síðan er náttúrlega skylda að kíkja niður í St.Pauli á slóðir bítla og hálfberra kvenna.
Síðast þegar við fórum skoðuðum við Reeperbahn og Herbertstrasse að nóttu til, og það er ævintýri út af fyrir sig, en nú háttaði þannig til hjá okkur að við ákváðum að kíkja þangað eftir hádegið, og það er engu minni upplifun! Allt öðru vísi reyndar. Dagvaktin á Herbertstrasse, þar sem konurnar standa í sýningargluggum og falbjóða sig, er t.d. klárlega ekki eins glæsileg og næturvaktin, það verður að segjast alveg eins og er. Nánar um það síðar, kannski
.
Um kvöldið tókum við svo þátt í hátíðahöldum á búgarðinum, og enduðum kvöldið á að leika fyrir dansi í 3 tíma samfleytt! Það var alveg sama hvað borið var á borð fyrir þjóðverjana, þeir voru alltaf jafn kátir, þó sýnu kátastir þegar gamalt rokk var á boðstólum - AC/DC, Deep Purple o.s.frv....
Snemma morguninn eftir hélt svo ævintýrið áfram. Við pöntuðum 2 leigubíla sem áttu að flytja okkur á lestarstöðina en þýzka skipulagið brást illilega og einungis annar kom á réttum tíma. Hinn kom alls ekki. Þá var ekki um annað að ræða en að panta annan og biðja hann að keyra eins og vindurinn á lestarstöðina. En sá var nú ekki að flýta sér, hafði enda meiri áhyggjur af því að farangurinn myndi skemma Mercedesinn en að strákarnir væru að missa af lestinni. Svo fór að hann kom 5 mín. of seint og því urðu 3 okkar að bíða í 2 tíma eftir næstu lest. Frekar súrt.
Í Köben var allt lokað eins og oftast nær á sunnudögum og því fórum við yfir til Malmö að versla, það sem til stóð að gera í London. Eftir vel heppnaða verslunarferð í H&M, Stadium og fleiri góðum stöðum smelltum við okkur aftur yfir Eyrarsundið og fórum í kvöldmat á yndlings ressanum okkar, Italiano við Fiolstræde. Það klikkaði ekki frekar en fyrri daginn og var ágætis endir á skemmtilegri, en misjafnlega heppnaðri ferð.
Við vorum ansi fúlir út í Express á föstudaginn, eðlilega. Ég hef sjálfur haft miklar mætur á félaginu, hef flogið oft með því og aldrei áður lent í vandræðum. En þetta var aðeins of mikið, og hrikalega fúlt svo maður tali mannamál. Eftir því sem dagarnir líða hefur mér þó runnið reiðin að mestu, enda geta allir lent í vandræðum. Mér finnst ég samt hafa heyrt ansi mörg dæmi um vesen hjá Express undanfarið. Vonandi ná þeir að vinna sig útúr þeim vandræðum. Og þó það sé vissulega þannig að maður hafi aldrei lent í viðlíka töf hjá Icelandair þá er það nú samt svo að þar á bæ er iðulega einhver smá seinkun, a.m.k. er það mín reynsla. Ég man varla eftir því að hafa verið í flugi með Icelandair sem var á áætlun! Iðulega 45-60 mínútna seinkun, og stundum að því er virðist algjörlega að ástæðulausu. Mér er t.d. minnisstætt þegar ég fór til Glasgow í fyrrahaust þegar áhöfnin mætti ekki um borð fyrr en rúmum hálftíma eftir áætlaða brottför! Það er alveg spurning hvort það er ekki bara betra að vera einu sinni alltof seinn heldur en alltaf aðeins of seinn? Dæmi hver fyrir sig .
Ferðalög | 28.9.2007 | 11:54 (breytt 6.7.2008 kl. 00:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Við félagarnir í Á móti sól erum að leggja upp í mini-heimsreisu nú um helgina. Við hefjum leik annað kvöld, fimmtudagskvöld, hjá Árna vini okkar á Útlaganum á Flúðum en það er orðinn árviss viðburður að við komum fram á þeim skemmtilega stað. Við hefjum leik þar um kl. 22.00 og spilum eitthvað fram yfir miðnættið, líklega til 1. Að því loknu stígum við uppí rútu sem flytur okkur til Keflavíkur, eða Sandgerðis raunar, í flugstöð Leifs heitins en þaðan förum við snemma á föstudagsmorgun til London.
Í London er á stefnuskránni að sjá Prince á tónleikum, en hann er einmitt að klára svakalega tónleikaröð í London á föstudagskvöldið. Held að hann sé búinn að spila á 30-40 tónleikum þar í röð, síðan 1.ágúst. Það verður ekki leiðinlegt.
Á laugardaginn höldum við síðan til Hamborgar, þar sem ætlunin er að spila fyrir hestamenn af ýmsu þjóðerni, á stórum búgarði rétt fyrir utan borgina.
Á sunnudagsmorgun liggur leið okkar síðan til gömlu góðu Kaupmannahafnar, þaðan sem við fljúgum að endingu aftur heim .
Ferðalög | 19.9.2007 | 23:56 (breytt 6.7.2008 kl. 00:04) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
Tenglar
Hótel
- Hotel Club
- Trip Advisor Umsagnir um hótel o.fl.
- Totalstay Oft góð tilboð
- GTA Hotels Oft góð tilboð
Eitt og annað
Ýmislegt
- Íslenska Beygingar o.þ.h.
- Deacon Blue
- You Tube
Það sem skiptir máli
- KHÍ
- U2
- Madness Þeir eru enn að!
- Liverpool Opinber síða félagsins
- Liverpool Liverpool klúbburinn á Íslandi
- Á móti sól
Flugfélög
Ferðalög o.þ.h.
- British Airways Flug til London Gatwick
- SAS Flug til Osló og Stokkhólms
- Icelandair
- Iceland Express
- German Wings Flug til Kölnar/Bonn o.fl.
England
Ferðalög o.þ.h.
- Flugvellir Flugvellir í Bretlandi
- Eurostar Hraðlest til Parísar og Brussel
- Virgin Trains Lestir út á land
- The Tube Lestarkerfið í London
- London Town London
- Map 24 Vegvísun um allan heim
- Ticketmaster Miðar á tónleika o.fl.
- St.Giles Hotel Frábær staðsetning - ágætt hótel
- Late Rooms Tilboð á gistingu
- Travel Inn Traust og fjölskylduvæn hótelkeðja
Danmörk
Ferðalög o.þ.h.
- Veðrið Veðrið í DK fyrr og nú, eftir svæðum
- Alt om Köbenhavn Allt um Köben
- Min reklame Tilboð frá verslunum
- Krak Vegvísun, kort o.fl.
- Dansk Autorent Ódýr bílaleiga
- Gisting á tilboði Hótel í Danmörku - Tilboð dagsins
- Dancenter Sumarhús í Danmörku og víðar
- Sol og Strand Sumarhús í Danmörku og víðar
- Dansommer Sumarhús í Danmörku og víðar
- Novasol Sumarhús í Danmörku og víðar
- Italiano Skemmtilegur ressi í Köben
Bloggvinir
-
nkosi
-
ansiva
-
atlifannar
-
skarfur
-
agustolafur
-
amotisol
-
baldurkr
-
bbking
-
bjarnihardar
-
brandurj
-
gattin
-
binnag
-
bryndisvald
-
brynja
-
bestfyrir
-
daxarinn
-
ebbaloa
-
austurlandaegill
-
eirag
-
hjolagarpur
-
ellasprella
-
eythora
-
ea
-
fjarki
-
gesturgudjonsson
-
dullari
-
gretar-petur
-
gudni-is
-
gudbjorng
-
hugs
-
gummigisla
-
gummisteingrims
-
bitill
-
gunnarfreyr
-
nesirokk
-
rattati
-
hehau
-
hermannol
-
krakkarnir
-
nabbi69
-
swiss
-
810
-
ingimundur
-
ingvarvalgeirs
-
jakobsmagg
-
presley
-
katrinsnaeholm
-
buddha
-
larahanna
-
maggib
-
magnusvignir
-
jabbi
-
palmig
-
rungis
-
snorris
-
slembra
-
lehamzdr
-
svanurg
-
sverrir
-
saedis
-
tinnhildur
-
tommi
-
postdoc
-
doddilitli
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar