Langloka um Liverpool

Það er hálf súrt að halda með Liverpool þessa dagana. Ekki vegna þess að það gangi eitthvað óskaplega illa hjá liðinu, heldur fyrst og fremst vegna andans sem virðist ríkja í herbúðum félagsins.

Í gær mátti lesa á netmiðlum að eigendur félagsins hefðu rætt við Jurgen Klinsmann um að taka við félaginu færi svo að Rafael Benites hætti, eins og það var orðað, og það finnst mér enn eitt dæmi um óeðlilega framkomu eigenda félagsins í garð framkvæmdastjórans - sem hefur að mínu mati gert heilmikið fyrir félagið og er fullfær um að koma því í allra fremstu röð fái hann til þess frið. En friðinn virðist hann ekki ætla að fá, því miður. 

Ég held að það hljóti að vera eitthvað að hjá félagi sem er svona á tauginni alla daga. Auðvitað mætti ganga betur en það er nú ekki eins og himinn og jörð séu að farast! Við erum enn með í meistaradeildinni og bikarkeppninni og í deildinni erum við í 4.sæti, höfum tapað 9 stigum meira en toppliðið. Það er þriggja leikja sveifla, það eru nú öll ósköpin!

Oftast nær taka toppliðin út slæman kafla einhverntíma á tímabilinu og ég leyfi mér að vona að sá kafli sé nú búinn hjá okkur, en ekki toppliðunum þremur. Deildin vinnst oftast á 80-90 stigum og við getum enn náð því, að því gefnu að slæmi kaflinn sé nú að baki. Það er heldur ekkert óalgengt að meistaraliðin tapi 4-6 leikjum, við höfum tapað tveimur. Að vísu eru jafnteflin orðin allt of mörg, en það er algjör óþarfi að fara á límingunum yfir gengi liðsins. Það er á algjörlega réttri leið, liðið spilar mun skemmtilegri fótbolta en undanfarin ár og við erum komnir með heimsklassa striker í Fernando Torres. Leiðin liggur bara upp á við - ekki spurning! Nú þarf bara að rétta úr sér og hætta að væla!

Þessi hræðilegi kafli liðsins er ekkert til að missa svefn yfir og þessvegna finnst mér sorglegt að sjá hversu taugaóstyrkur Benites er orðinn. Hann er farinn að minna óþægilega á Houllier kallinn, fer í vörn þegar fréttamenn þjarma að honum o.s.frv. Það finnst mér benda til þess að eitthvað sé að hjá klúbbnum. Má ég líka rifja það upp að Houllier kallinn kom Lyon í fremstu röð í Evrópu eftir að hann hrökklaðist frá Liverpool, þannig að honum var klárlega ekki alls varnað þó honum gengi illa með Liverpool liðið. Líklega þarf Jóhann Ingi bara að taka það að sér að berja sjálfstraustið í klúbbinn á ný Wink.

Auðvitað hefði ég ekkert á móti því að sjá Jurgen Klinsmann, Jose Mourinho eða einhvern álíka töffara taka við liðinu, og líklega er staða Benites orðin það erfið eftir það sem á undan er gengið í samskiptum hans og eigenda liðsins að hann mun ekki ná að berja í liðið þann þrótt sem upp á vantar til að allt smelli saman, en það segi ég alveg satt að mér þætti mikið vænna um að liðið yrði enskur meistari undir stjórn Benites en t.a.m. Mourinho. 

Ekki það að ég sé einhver sérstakur aðdáandi Benites, finnst hann raunar oft stórundarlegur ef út í það er farið, en mér finnst einfaldlega óþolandi að fylgjast með þeirri móðursýki og taugaveiklun sem virðist ríkja á Anfield. Afhverju í ósköpunum þurfum við að vera með bakið upp við vegg í bullandi vörn eins og staða liðsins er í dag? Staðreyndin er sú að liðið er eitt það besta í heiminum á góðum degi, en góðu dagarnir eru enn sem komið er ekki nægilega margir. Það skrifa ég eingöngu á of lítið sjálftrausts félagsins í heild sinni.

Í þessu sambandi hefur oft verið litið til Manchester United og áranna sem Alex Ferguson hefur verið þar við stjórnvölinn. Man U. missti ekki trúna á að kallinum tækist að koma klúbbnum í fremstu röð, eftir mörg mögur ár, jafnvel þó liðið endaði í 11. sæti þriðja tímabilið sem hann stjórnaði því og í því þrettánda tímabilið þar á eftir! Það var síðan ekki fyrr en á 6.tímabilinu sem honum tókst loks að gera liðið að meisturum. Og þá var ekki aftur snúið.

Benites er nú á sínu fjórða tímabili með Liverpool. Í fyrra endaði liðið í þriðja sæti í deildinni og komst í úrslit meistaradeildarinnar. Er það svo ömurlegur árangur að réttlætanlegt sé að kalla eftir afsögn framkvæmdastjórans? Stjóra sem hefur á sínum stutta ferli með liðið landað evrópumeistaratitli, enskum bikar og stórbikar Evrópu? 

Lið á borð við Liverpool á að bera sig betur.   

 


Gamalt tuð

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaðurinn geðþekki á Stöð 2 og Sýn, tók fyrir nokkrum árum upp þann ósið að segja mikið mun í tíma og ótíma. Þeir voru mikið mun betri í síðari hálfleik... o.s.frv. Þetta fór óskaplega í taugarnar á mér, og mörgum fleiri raunar, á sínum tíma, en af því að Gaupi er að öðru leyti úrvalsmaður og mikill púllari leiddi ég þetta hjá mér Smile.

Síðan ég hætti með Stöð 2 og Sýn hef ég blessunarlega ekki heyrt þessa þvælu lengi, en nú ber svo við að ég er farinn að sjá þessari endemis vitleysu bregða fyrir á prenti! Henry Birgir Gunnarsson íþróttafréttamaður á Fréttablaðinu bregður þessu nú óspart fyrir sig, og gengur meira að segja svo langt í blaðinu í dag að leggja Alfreð Gíslasyni óskapnaðinn í munn í viðtali!

Ég á einhvernveginn bágt með að trúa að Alfreð hafi svo litla tilfinningu fyrir íslensku máli að honum finnist þörf á að láta mikið og mun standa saman í setningum, jafnvel þó hann hafi búið lengi erlendis. Þó veit maður aldrei, kannski er ég bara svo blindaður af aðdáun á manninum að ég trúi engu misjöfnu upp á hann. Allavega þykir mér þetta afskaplega hvimleiður ávani, hver svo sem á í hlut.  


Samkeppni í flugi?

Gaman að segja frá því að lággjaldaflugfélagið German wings ætlar að byrja að fljúga frá Reykjavík til Kölnar í vor Smile. Ég var að skoða síðuna þeirra í gær og það var nú ekki hægt að fá nein fáránlega ódýr flugsæti, en samt slatta af sætum á innan við 20 þúsund kall a.m.k. Við í áms flugum með þeim frá London til Hamborgar í haust og það var ekkert að því, ekki númeruð sæti reyndar en það er bara fyndið. Það er margt verra en þetta flugfélag, til hamingju Ísland Wizard

Nú vantar bara Easy Jet eða Ryanair. Koma svo!


Það er nefnilega það

Valgerður Sverrisdóttir útnefndi Jón Sigurðsson fráfarandi formann Framsóknarflokksins mann ársins í einhverju blaðanna um daginn. Undarlegt að fleirum skyldi ekki detta það í hug!


Nintendo 64 óskast

Einhver nostalgía greip mig um daginn. Hún lýsir sér þannig að mig dauðlangar að spila Wave Race á Nintendo 64! Þeir sem vita hvað ég er að tala um, skilja þetta kannski.....eða ekkiSmile. Svona er maður nú mikið barn.

 Ef einhver veit um svona vél til sölu, og umræddan leik, þá er ég til Smile


Jóladagatal Glitnis

Veit einhver um einhvern sem hefur einhverntíma fengið vinning í jóladagatali Glitnis? Ég hef altént tekið þátt frá upphafi og aldrei verið nálægt því að fá vinningErrm

Versti leikari í heimi?

 

Vincent D'onofrio Ég kýs þennan!

Þetta er Vincent D'onofrio úr Law&Order: Criminal Intent, fyrir þá sem ekki þekkja meistarannWhistling

Dead_047

Einhverjar fleiri uppástungur?


Handbækur

Handbækur eru til margra hluta nytsamlegar. Eins og nafnið gefur til kynna er handbók bók sem maður getur haft við höndina, og ég held að flestir leggi þann skilning í orðið að handbók sé uppflettirit af einhverju tagi. Grönspættebogen sem Rip Rap og Rup hafa ávallt við hendina er t.d. mjög gott dæmi um úrvals handbók, en í hana leita ungarnir í hvert sinn er þeir standa ráðþrota gagnvart einhverju - og finna undantekningarlaust prýðileg svör.

Ég held að við notum of lítið af handbókum. Líklega er það í mínu tilviki vegna þess að ég er einn af þeim sem telja sig vita flest um flest, og svoleiðis fólki finnst fremur vandræðalegt að fletta í bók sé það spurt ráða. Mun glæsilegra að svara strax, hátt og snjallt og af svo miklum sannfæringarkrafti að sá sem spyr velkist ekki eitt augnablik í vafa um ágæti svarsins! Jafnvel þó svarið sé þvæla. Þetta er kannski hreinlega hluti af þjóðareðlinu, það er miklu flottara að afgreiða alla hluti í hvelli en að ræða málin og skoða þau frá ólíkum hliðum, sbr. REI málið og ótalmargt fleira. Hefði t.d. sveitarstjóri Ölfushrepps gefið sér tíma til að glugga í handbók um góða siði í opinberri stjórnsýslu (sem ég geri ráð fyrir að sé til) þegar Orkuveitan bauð 45 milljóna mútugreiðslu gegn virkjunarleyfum hefði hann aldrei sagt já. Hann hefði séð það svart á hvítu að svona lagað gerir maður ekki. Og svo mætti lengi telja.

Það sem fékk mig til að leiða hugann að handbókum er nám mitt við Kennaraháskóla Íslands, en á leslista eins námskeiðsins eru nokkrar afbragðs handbækur. Þær eru skemmtilegar aflestrar og fullar af fróðleik, t.d. stendur í einni þeirri, Litrófi kennsluaðferðanna, að ætli maður sér að nota myndbönd við kennslu sé ekki ráðlegt að hafa minna sjónvarp en 27-28 tommu og einnig sé gott að hafa fjarstýringu við hendina. Ómetanlegur fróðleikur!

En til marks um það hve hlutverk handbóka er illilega misskilið hér á landi er okkur gert að læra efni þessara handbóka utanbókar fyrir próf. Það finnst mér mjög miður því það rýrir illilega gildi handbókanna - maður þarf þá ekkert á þeim að halda lengur. Tekur bara stóra sjónvarpið og fjarstýringuna umhugsunarlaustWink  

 


Smá upprifjun í tilefni dagsins

Fréttamaður: „Megas. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig að hafa nú fengið íslenskuverðlaun Jónasar Hallgrímssonar?"

Megas: „Bunch of money!"


Ívar Ingimarsson

Ívar Ingimarsson miðvörður Reading í Englandi hefur tilkynnt að hann muni ekki gefa kost á sér í íslenska landsliðið í framtíðinni. Hann ber því við að hann sé orðinn þrítugur og þurfi orðið það mikla hvíld að hann telji ekki skynsamlegt að eyða dýrmætum frítíma sínum í að þvælast í landsleiki.

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um svona lagað. Hvað ef allir hugsuðu svona? Hvað má t.d. Hermann Hreiðarsson segja, sem spilar í sömu deild og Ívar? Hann er eldri en Ívar, og ætti því að þurfa a.m.k. jafnmikla hvíld, en það stöðvar hann ekki í því að mæta í hvern einasta landsleik af fullum krafti. Það er nú heldur ekki eins og landsleikjaálag hafi verið að drepa íslenska leikmenn undanfarin ár. Er liðið ekki að spila þetta 8-10 leiki á ári?

Ég ætla ekki að fara að hrauna yfir Ívar hér, hann hefur eflaust sínar ástæður fyrir ákvörðuninni. En vonandi eru þær merkilegri en þessi hvíldarleysispæling! Hún er veigalítil þykir mér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband