Það er dálítið broslegt að fylgjast með viðbrögðum framsóknarmanna við þessum tíðindum og heyra skýringar formanns og varaformanns á því af hverju upp úr viðræðunum slitnaði. Þeir virðast báðir frekar súrir og Jón kvartar t.d. yfir því að aðrir flokkar hafi truflað viðræðurnar með því að voga sér að stíga í vænginn við Geir!
Er þetta ekki örugglega sami Jón og sagðist ætla að hlusta raddir fólksins og halda sig til hlés í stjórnarmyndunarviðræðum - leyfa öðrum að hafa frumkvæðið? Og er þetta ekki sami Guðni Ágústsson sem sagði fyrir 3 vikum síðan að það væri alveg morgunljóst að framsóknarflokkurinn færi ekki í ríkisstjórn ef flokkurinn fengi ekki nema 6-7 menn kjörna!
Það eina sem er alveg öruggt í íslenskum stjórnmálum er að framsóknarmenn munu alltaf gera allt sem í þeirra valdi stendur til að komast að kjötkötlunum, sama hvaða skilaboð þjóðin sendir þeim. Nýr þingmaður flokksins Höskuldur Þórhallsson orðaði þetta með grímulausum hætti: Ég vil bara að framsóknarflokkurinn fari í stjórn, mér er sama hvort það er til hægri, vinstri eða á miðjunni! Greinilega framsóknarmaður Par Excellence
![]() |
Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 17.5.2007 | 19:28 (breytt 6.7.2008 kl. 00:25) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Getur Steingrímur ekki sjálfum sér um kennt? Ég fæ ekki betur séð en að "tilboð" hans til framsóknar um að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG falli hafi gert allar vonir um vinstri stjórn að engu. Það kemur í ljós sem ýmsir bentu á fyrir kosningar, þar á meðal ég, að VG eru of herskáir og ósveigjanlegir til að nokkur geti unnið með þeim. Þegar allt kemur til alls detta atkvæði greidd vinstri grænum einfaldlega nánast jafn dauð niður og þau sem greidd voru Íslandshreyfingunni!
Þó ég hafi ekki nokkurt einasta álit á framsóknarflokknum skil ég þá fullkomlega að hafa móðgast við þetta útspil Steingríms. Miðað við hversu snjall Steingrímur er greinilega á mörgum sviðum virðist hann ekki hafa til að bera góða samskiptahæfni, sem hlýtur að vera nauðsynleg stjórnmálaforingjum í lýðræðisríkjum.
Þetta ber ekki vott um neina kænsku, þetta er einfaldlega ávísun á það að VG mun sitja áfram í stjórnarandstöðu, rétt eins og allir sem vildu vita vissu fyrir kosningar. Og nú kvartar hann og kveinar yfir því að enginn vilji tala við hann! Hvernig skyldi nú standa á því vinur?
![]() |
Steingrímur: Stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar allt of hægrisinnuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 17.5.2007 | 19:15 (breytt 6.7.2008 kl. 00:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Björn segir: Meira en 80% kjósenda flokksins höfðu áskorun Jóhannesar að engu. Hmmm........er það gott? Allt má nú túlka sér í hag!
Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvort Jóhannes Jónsson er góður maður eða slæmur en mér, sem óbreyttum borgara, hefur ekki á nokkurn hátt dulist hvaða hug dómsmálaráðherra landsins ber til hans og Baugs. Björn hefur hvað eftir annað tjáð sig í ræðu og riti um fyrirtæki Jóhannesar og þar með beitt ofríki, í krafti stöðu sinnar og valds..........eða hvað?
Það að 20% kjósenda Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, líklega eitthvað um 2500 manns, skyldu strika yfir dómsmálaráðherra landsins hljóta að vera skýr skilaboð um það hvað kjósendunum sjálfum finnst. Ekki stóð Jóhannes yfir þeim í kjörklefanum.
Þetta eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem Björn nýtur ekki trausts hjá, ekki gleyma því. Og gleymum því heldur ekki að Jóhannes Jónsson var sýknaður af öllum þeim óteljandi sökum sem ríkisvaldið, í skjóli Björns, bar á hann.
Ég deili áhyggjum yfir þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins sjálfs með Birni, það er ekki spurning, en það er ekki vegna auglýsingar Jóhannesar heldur yfirgangs Björns sjálfs, og hans félaga, í hverju málinu á fætur öðru. Þurfum við að ræða það frekar!!!
Það að formaður flokksins skuli gefa það út að þessi skýru skilaboð kjósenda flokksins skuli að engu höfð segir mér t.d. mun meira um siðferði og þróun stjórnmálastarfs, eins og Björn kýs að kalla það, en auglýsing Jóhannesar í Bónus.
![]() |
Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 16.5.2007 | 15:15 (breytt 6.7.2008 kl. 00:26) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Það er gaman að segja frá því að við drengirnir í Á móti sól ætlum að endurnýja kynnin við gamla félaga, ef svo má segja, um helgina. Á föstudaginn verðum við á Gauk á Stöng, en það er orðið ansi langt síðan þar var síðast stiginn dans við okkar undirleik. Staðurinn opnaði með pompi og prakt um síðustu helgi og er víst bara ansi flottur. Það verður gaman að spila þar aftur.
Á laugardaginn spilum við síðan á opnunardansleik í Valaskjálf á Egilsstöðum, en það er álíka langt, ef ekki lengra síðan við spiluðum þar síðast. Sá frábæri staður hefur verið lokaður alltof lengi, en nú er búið að taka allt í gegn skilst mér, þannig að það verður ekki síður spennandi að spila loksins þar aftur en á Gauknum.
Bloggar | 15.5.2007 | 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég setti smá óskalista inná síðuna í gær og eins og gengur rættust sumar óskirnar, en aðrar ekki.
1. Það kviknaði á Lindinni þegar ég startaði bílnum mínum. Ég skil ekki hvað veldur þessu en þetta er dálítið óþægilegt. Til að útskyra þetta nánar þá er Lindin kristileg útvarpsstöð og annar bíllinn minn er þeim undarlegu kostum búinn að hann dreifir orði Guðs af miklum móð og algjörlega óumbeðinn um leið og hann er ræstur.
2. Ríkisstjórnin féll að vísu ekki en hún mun örugglega ekki starfa áfram, svo það er kannski hálfur sigur. Í það minnsta hafa framsóknarmenn verið óþreytandi við að lýsa því yfir að undanförnu að ef flokkurinn fengi ekki nema 6-7 menn kjörna á þing væri alveg ljóst að þeir settust ekki í ríkisstjórn.
3. Jón Sig. komst ekki inná þing.
4. Samfylkingin fékk ágæta kosningu. Að vísu var ég að vona að útkoman yrði enn betri hér í Suðurkjördæmi svo Björgvin G. yrði sterkari kandidat í menntamálaráðherrann. Sjáum hvað setur.
5. Sigmundur Ernir já.........tölum betur um það síðar
6. Kosninganóttin var vissulega spennandi, þó ég hafi ekki upplifað sömu gríðarlegu spennuna og Sigmundur Ernir
7. Robbie Fowler var nú víst ekki að spila fyrr en í dag, og ég held að honum hafi gengið sæmilega. Hann var allavega kvaddur með virktum.
8. West Ham hélt sér í deildinni.
9. Veit ekki með Eirík.
10. framsókn fékk fremur háðuglega útreið á flestum stöðum.
11. Bjarni Harðar komst á þing. Til hamingju
12. Flestir hugsa ég að hafi átt góðan dag, eða í það minnsta viðunandi, nema kannski Ómar Ragnarsson og Jón Sigurðsson. Svo hugsa ég að Árna Johnsen og Birni Bjarnasyni hafi brugðið nokkuð þegar líða tók á nóttina og fréttir bárust af því að kjósendur Sjálfstæðisflokksins hefðu strikað yfir þá í stórum stíl. En Geir lýsti því strax yfir að slíkt skipti engu máli, allavega ekki í tilviki Björns, þannig að hann hefur allavega getað sofnað rólegur út frá tindátunum sínum. Þetta hafa ekki verið nema svona 4-5000 manns að segja álit sitt. Hvaða máli skipta svoleiðis smámunir?
Bloggar | 13.5.2007 | 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
......að það kvikni ekki sjálfkrafa á Lindinni þegar ég starta bílnum mínum
.......að ríkisstjórnin falli
......að Jón Sigurðsson komist ekki inná þing, það mun kannski segja valdaklíkunni í framsókn eitthvað...(?)
......að Samfylking nái góðri kosningu svo valdahlutföllin í ríkisstjórn S og D verði sem jöfnust
......að Sigmundur Ernir verði ekki yfirspenntur og kjánalegur
......að kosninganóttin verði á einhvern hátt spennandi
......að Robbie Fowler standi sig eins og hetja í sínum síðasta deildarleik fyrir Liverpool
......að West Ham haldi sér í deildinni
......að Eiríkur Hauksson nái því að Valentine Lost er hvorki rokk né besta lagið sem tók þátt í Eurovision í ár. Annað er bara óhollt
......að framsóknarflokkurinn fái háðuglega útreið allsstaðar nema í Suðurkjördæmi
......að Bjarni Harðar komist á þing
......að allir eigi góðan dag
Stjórnmál og samfélag | 12.5.2007 | 08:29 (breytt 6.7.2008 kl. 00:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ég er dálítið þreyttur á því hvernig við afgreiðum orðið árlega ófarir okkar í þessari undankeppni. Samsæri, austurblokkin er með þetta, Balkanskagabræðralag o.s.frv. Ég held að við megum ekki detta í svona væl.
Víst eru þessar þjóðir orðnar margar en eru þær ekki partur af Evrópu alveg eins og við? Ég sé ekki að það sé svindl þó fólk af svipuðum menningarsvæðum hafi svipaðan smekk. Hvað megum við segja þegar okkar fulltrúi hvetur okkur til að kjósa norðurlandaþjóðirnar á laugardaginn! Er það ekki sami "glæpurinn"?
Ef málið er að fólkinu sem kaus líkaði betur við lögin 10 sem komust áfram en okkar lag þá er bara akkurat ekkert við því að gera.
Í gær voru 28 þjóðir að keppa, og með fullri virðingu fyrir öllum hlutaðeigandi aðilum þá vorum við með tilþrifalítið lag, vondan texta og fremur óspennandi atriði. Í það minnsta hef ég lítið gaman af því að sjá menn lemja ótengd hljóðfæri til óbóta í beinni . Það eina sem hefði getað fleytt okkur áfram í keppninni var Eiríkur, það var sterkur leikur að fá hann til að syngja lagið, en því miður dugði það ekki til í þetta sinn.
Það gengur bara betur næst. Ekkert væl!
![]() |
Fleiri en Eiríkur ósáttir við svæðaskiptingu í Eurovision |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | 11.5.2007 | 20:05 (breytt 6.7.2008 kl. 00:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég er flokksbundinn Samfylkingarmaður. Ég man reyndar ekki gjörla hvernig það vildi til en kann samt sem áður ágætlega við það. En þó ég sé í flokknum er ekki þar með sagt að hann eigi atkvæði mitt víst. Ég er nefnilega þeirri ónáttúru gæddur að geta ekki haldið með stjórnmálaflokkum eins og fótboltaliðum, og ekki fæddist ég heldur í neinn flokk. Þess vegna er ég í þeirri stöðu að þurfa að hugsa það gaumgæfilega fyrir hverjar kosningar hvernig atkvæði mínu er best varið. Þetta puð mitt hefur gert það að verkum að mér telst til að ég hafi kosið alls 4 ólíka flokka í kosningum til Alþingis. Óttalegur vingulsháttur myndu sumir eflaust segja, en ég reyni að sjálfsögðu að upphefja sjálfan mig og segja að þetta sé til marks um heiðarleika, víðsýni eða eitthvað þaðan af flottara.
En hvort sem þetta vesen á mér flokkast nú undir vingulshátt eða eitthvað annað þá breytir það því ekki að þessar kosningar eru engin undantekning. Ég hef verið jafn tvístígandi og áður og líklega aldrei eins óákveðinn. Og það er erfitt að vera óákveðinn. Margir kostir í boði, enginn alslæmur og enginn fullkominn heldur. Þá verður maður að reyna að kryfja málin eftir bestu getu.
Ég held að ég geti lofað því að hvorugan ríkisstjórnarflokkinn mun ég kjósa. Samt hef ég að undanförnu haft ákveðið samviskubit yfir því vegna þess að ég hef svo oft heyrt söng stjórnarherranna um hvað við höfum það gott að ég er eiginlega farinn að trúa því. Hverslags vanþakklæti er þá í mér að hafna þessum ágætu mönnum? Þeir segja jú að við höfum aldrei haft það betra og flagga ótal plöggum frá allskonar stofnunum því til staðfestingar, plöggum sem sýna svart á hvítu mesta hagvaxtarskeið sögunnar. Það er erfitt fyrir óákveðinn sveitastrák eins og mig að bera á móti slíku. Aukinheldur hef ég nú fengið sendan loforðalista frá báðum flokkum þar sem margt freistandi er í boði.
En hvað hefur hagvöxtur svosem með minn hag að gera og hvað skyldi öðru fremur hafa orðið til að hækka hann svona gífurlega á síðustu árum? Jú það er einkaneysla almennings. Skuldsetning íslenskra heimila, sem er með hreinum ólíkindum um þessar mundir, hefur semsagt jákvæð áhrif á hagvöxtinn. Sú staðreynd að ég borga nú 1700 krónur í hvert skipti sem ég þarf að að fara með börnin mín á læknavaktina hér á Selfossi, í stað lítils sem einskis áður, hækkar einnig hagvöxtinn. Milljónirnar 3 eða 4 sem ég hef borgað í leikskólagjöld til sveitarfélagsins hafa sömuleiðis jákvæð áhrif á hagvöxtinn, sem og milljónirnar sem ég skulda í húsinu mínu. Hagvöxturinn hefur semsagt ekkert með það að gera hvort ég hef það gott eða skítt.
Hvað loforðalistana áhrærir verð ég að segja að slíkir listar úr þessari átt segja mér ekki neitt. Sú staðreynd að umræddir flokkar hafa haft næg tækifæri til að koma flestum þeim hlutum í framkvæmd sem þeir lofa nú, en kosið að gera það ekki, segir mér mun meira. Til að mynda greiddu stjórnarflokkarnir a.m.k. fjórum sinnum á kjörtímabilinu sem nú er að líða atkvæði gegn afnámi stimpilgjalda.
Þá liggur það fyrir. Ég get með góðri samvisku sleppt því að kjósa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokk.
Hvað er þá eftir? Frjálslyndir og Íslandshreyfingin finnst mér ekki heillandi kostir. Þó flokkarnir hafi margt til síns ágætis finnst mér þeir báðir standa á hálfgerðum brauðfótum. Því hugleiði ég ekki að sinni þann möguleika að kjósa þá.
Vinstri-grænir hafa hinsvegar heillað mig talsvert á kjörtímabilinu. Þeir hafa verið skeleggir og þjarmað kröftuglega að stjórninni í veigamiklum réttlætismálum, eins og t.d. Íraksmálinu. En það er ekki nóg að vera góður í að mótmæla. Til að koma góðum hlutum til leiðar þarf að sýna sveigjanleika og vilja til að reyna að komast að niðurstöðu sem færir okkur til betri vegar. Þannig mjökumst við smátt og smátt í rétta átt. Góðir hlutir gerast jú hægt. Því miður sýnist mér að atkvæði greidd VG muni ekki verða til þess að koma málum í betra horf. Að minnsta kosti ekki ef marka má niðurstöður síðustu sveitarstjórnakosninga, þar sem flokkurinn vann sigur á öllum vígstöðvum en settist einungis í eina sveitarstjórn. Slíkur ósveigjanleiki minnir um of á Kvennalistann sáluga, sem ég kaus reyndar einu sinni, til að heillavænlegt geti talist.
Þá er það Samfylkingin. Ég hef ekki verið sérstaklega hrifin af framgöngu flokksins á kjörtímabilinu og einna helst hef ég orðið fyrir vonbrigðum með formanninn. En þessar síðustu vikur finnst mér flokkurinn þó hafa náð vopnum sínum á nýjan leik. Ingibjörg er farinn að líkjast þeim leiðtoga sem hún eitt sinn var og flokkurinn hefur komið fram með málefnalegar tillögur í veigamiklum málum, eins og t.d. menntamálum þar sem m.a. Björgvin G. Sigurðsson hefur verið duglegur að benda á vitrænar leiðir. Almennt virðist mér flokkurinn setja velferðarmál á oddinn og hafa það að auki umfram aðra stjórnarandstöðuflokka að vera öfgalaus og því vænlegur kostur til að vinna með. Hvernig svo sem mál skipast eftir kosningar.
Ég get ekki sett fingurinn á það hvað það er umfram annað sem gerir það að verkum að ég mun kjósa Samfylkinguna á laugardaginn. Enda er það svo að ég hef ekkert sérstakt vit á stjórnmálum. En ég hef þó gert heiðarlega tilraun til að skoða mál af sanngirni og komist að þeirri niðurstöðu að Samfylkingin sé besti kosturinn. Vitaskuld get ég ekki neytt neinn til þess að vera sammála mér, en mér þætti vænt um ef fleiri skoðuðu með opnum huga hvernig atkvæði þeirra er best varið. Altént held ég að atkvæði greitt Samfylkingunni geti orðið til þess að smátt og smátt breytist hlutirnir til betri vegar.
Stjórnmál og samfélag | 11.5.2007 | 08:45 (breytt 6.7.2008 kl. 00:29) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggar | 10.5.2007 | 00:02 (breytt kl. 00:05) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mikið væri nú skemmtilegt ef eitthvað markvert gerðist einu sinni í kosningum, Sjálfstæðisflokkurinn fengi ekki 35-40% og framsókn ekki 15-20%. Þá gæti maður farið að hlakka til kosninganæturinnar.
Í Sunnlenska fréttablaðinu í dag er fólk á förnum vegi spurt hvað það ætli að kjósa á laugardaginn. Einungis tveir viðmælendur blaðsins segjast hafa ákveðið sig, annar ætlar að kjósa Sjálfstæðisflokkinn og hinn framsókn. En það er athyglisvert að báðir gefa upp sömu ástæðu. Og hver skyldi hún nú vera? Jú: Af því ég hef alltaf gert það
![]() |
Fylgi Framsóknarflokksins tekur stökk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 9.5.2007 | 23:58 (breytt 6.7.2008 kl. 00:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
Tenglar
Hótel
- Hotel Club
- Trip Advisor Umsagnir um hótel o.fl.
- Totalstay Oft góð tilboð
- GTA Hotels Oft góð tilboð
Eitt og annað
Ýmislegt
- Íslenska Beygingar o.þ.h.
- Deacon Blue
- You Tube
Það sem skiptir máli
- KHÍ
- U2
- Madness Þeir eru enn að!
- Liverpool Opinber síða félagsins
- Liverpool Liverpool klúbburinn á Íslandi
- Á móti sól
Flugfélög
Ferðalög o.þ.h.
- British Airways Flug til London Gatwick
- SAS Flug til Osló og Stokkhólms
- Icelandair
- Iceland Express
- German Wings Flug til Kölnar/Bonn o.fl.
England
Ferðalög o.þ.h.
- Flugvellir Flugvellir í Bretlandi
- Eurostar Hraðlest til Parísar og Brussel
- Virgin Trains Lestir út á land
- The Tube Lestarkerfið í London
- London Town London
- Map 24 Vegvísun um allan heim
- Ticketmaster Miðar á tónleika o.fl.
- St.Giles Hotel Frábær staðsetning - ágætt hótel
- Late Rooms Tilboð á gistingu
- Travel Inn Traust og fjölskylduvæn hótelkeðja
Danmörk
Ferðalög o.þ.h.
- Veðrið Veðrið í DK fyrr og nú, eftir svæðum
- Alt om Köbenhavn Allt um Köben
- Min reklame Tilboð frá verslunum
- Krak Vegvísun, kort o.fl.
- Dansk Autorent Ódýr bílaleiga
- Gisting á tilboði Hótel í Danmörku - Tilboð dagsins
- Dancenter Sumarhús í Danmörku og víðar
- Sol og Strand Sumarhús í Danmörku og víðar
- Dansommer Sumarhús í Danmörku og víðar
- Novasol Sumarhús í Danmörku og víðar
- Italiano Skemmtilegur ressi í Köben
Bloggvinir
-
nkosi
-
ansiva
-
atlifannar
-
skarfur
-
agustolafur
-
amotisol
-
baldurkr
-
bbking
-
bjarnihardar
-
brandurj
-
gattin
-
binnag
-
bryndisvald
-
brynja
-
bestfyrir
-
daxarinn
-
ebbaloa
-
austurlandaegill
-
eirag
-
hjolagarpur
-
ellasprella
-
eythora
-
ea
-
fjarki
-
gesturgudjonsson
-
dullari
-
gretar-petur
-
gudni-is
-
gudbjorng
-
hugs
-
gummigisla
-
gummisteingrims
-
bitill
-
gunnarfreyr
-
nesirokk
-
rattati
-
hehau
-
hermannol
-
krakkarnir
-
nabbi69
-
swiss
-
810
-
ingimundur
-
ingvarvalgeirs
-
jakobsmagg
-
presley
-
katrinsnaeholm
-
buddha
-
larahanna
-
maggib
-
magnusvignir
-
jabbi
-
palmig
-
rungis
-
snorris
-
slembra
-
lehamzdr
-
svanurg
-
sverrir
-
saedis
-
tinnhildur
-
tommi
-
postdoc
-
doddilitli
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar