![]() |
Veturinn hefur ekki sleppt taki sínu enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 9.5.2007 | 11:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)


Stjórnmál og samfélag | 8.5.2007 | 18:34 (breytt 6.7.2008 kl. 00:30) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég er óákveðinn eins og ég er alltaf fyrir kosningar og stundum líður mér ansi illa yfir því. Ég er nefnilega frekar efins um að ég muni kjósa annan ríkisstjórnarflokkanna og ég finn hreinlega fyrir sektarkennd á köflum yfir vanþakklætinu í mér. Það er nefnilega býsna erfitt fyrir óreyndan mann eins og mig að gera lítið úr því þegar tveir af valdamestu mönnum þjóðarinnar veifa plöggum sem sýna með óyggjandi hætti að við höfum hreinlega aldrei haft það betra. Mesta hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar segja þeir. Þvílíkt vanþakklæti! Meira að segja Bjarni Harðarson vinur minn er hættur að tala um agúrkur og paprikur og farinn að tala um hagvöxt! Öðruvísi mér áður brá.
Ekki dettur mér í hug að rengja þessa menn, ég hef ekkert vit á hagvexti í sjálfu sér. En ég veit þó að einkaneysla og fjárfestingar hafa talsvert með hagvöxtinn að gera, held reyndar að þetta séu 2 af 4 þáttum sem lagðir eru til grundvallar þegar hagvöxtur er reiknaður.
Gríðarleg skuldsetning heimilanna í landinu hefur semsagt jákvæð áhrif á hagvöxtinn. Fólk sem tekur lán fyrir einkaneyslu og eyðir langt umfram efni eykur um leið hagvöxtinn. Í hvert skipti sem ég fer með börnin mín á læknavaktina hér á Selfossi og borga 1700 krónur er ég að auka hagvöxtinn og líklega hafa milljónirnar 3 eða 4 sem ég hef greitt sveitarfélaginu í formi leikskólagjalda aukið hagvöxtinn líka. Væntanlega hefur sprengjan á fasteignamarkaðnum sömuleiðis haft svakaleg áhrif á hagvöxtinn. Ætli fólk sem er að hefja búskap og er að reyna að eignast sína fyrstu eign sé ánægt með þetta hagvaxtarskeið? Varla. Hagvöxtur hefur nefnilega ekkert með hag fólks að gera.
Þá er hagvöxturinn kominn útaf borðinu og ég aðeins rólegri yfir því að hugsa um að kjósa hvorki Sjálfstæðisflokkinn né Framsókn. En þá kemur inn um lúguna langur loforðalisti frá báðum flokkunum og þar er hellingur af flottum hlutum sem kæmu sér vel fyrir mig, og sjálfhverfur sem ég er hugsa ég með mér að líklega þurfi ég að skoða málin aðeins betur. En svo ranka ég við mér. Ef þeir vildu virkilega gera alla þessa flottu hluti væru þeir löngu búnir að því, næg tækifærin hafa þeir fengið.
Stjórnmál og samfélag | 7.5.2007 | 00:03 (breytt 6.7.2008 kl. 00:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Ég var að lesa grein í Morgunblaðinu um sölu á tónlist. Þar kemur fram að Sena ber höfuð og herðar yfir aðra útgefendur, sem eru svosem engar fréttir, en 18 af 20 söluhæstu titlum síðasta árs tengjast að sögn blaðsins Senu beint eða óbeint. Þessu til staðfestingar fylgir listi frá Sambandi hljómplötuframleiðenda yfir 25 söluhæstu plötur ársins 2006. Að vísu er þess getið að sölutölur frá 12 Tónum vanti.
Eitthvað fleira sýnist mér vanta á þennan lista því hljómplötuna Á MÓTI SÓL Í 10 ÁR er þar hvergi að finna. Ég fletti upp í gömlum tölvupóstum til að gá hvort þetta gæti staðist, því síðast þegar ég vissi var platan á topp 10 yfir söluhæstu plötur ársins. Í tölvupóstunum sá ég reyndar ekki endanlegar uppgjörstölur ársins, því þær hafði ég ekki fengið, en ég sá næstsíðasta Tónlista ársins sem er jafnframt síðasti listinn fyrir jól og á honum erum við um 2000 eintökum á eftir Björgvini Halldórssyni, sem samkvæmt Mogganum í dag var langsöluhæstur þessi jólin, og tæpum 1000 eintökum á eftir Bubba. Aftur á móti erum við rúmum 2000 eintökum á undan Regínu Ósk sem á einhvern undarlegan hátt endar þó í 20.sæti á listanum í Mogganum og verður þar með 18. Senuplatan á topp 20!
Fyrir þá sem ekki vita þá er Tónlistinn sölulisti Sambands hljómplötuframleiðenda og eftir honum er farið þegar plötusala er gerð upp, ákveðið hverjir hafa rétt á gull- og platínuplötum o.s.frv. Þessum lista er semsagt ætlað að vera raunverulegt mælitæki, og hefur verið nokkuð marktækur sem slíkur enda eru upplýsingar frá öllum þeim verslunum sem selja tónlist í einhverju magni hafðar til grundvallar við útreikninga á listanum.
Hljómsveitin Á móti sól er ekki í Sambandi hljómplötuframleiðenda, og því kemur okkur sá félagsskapur í sjálfu sér ekki við. Þó höfum við áður gert athugasemdir við vinnubrögð sambandsins og spurt áleitinna spurninga á borð við það hvort Sena njóti sérréttinda hjá sambandinu. Formanni sambandsins tekst t.a.m. yfirleitt alltaf að koma Senu að þegar hann er tekinn tali sem hlutlaus fagaðili, hann var t.d. beðinn að spá fyrir um söluhæstu titlana fyrir jólin í einhverju blaðinu og þar svaraði hann því til að hann mætti nú ekki gera upp á milli eða draga neinn útúr en tókst þó að lokum að nefna 3 flytjendur sem allir voru á mála hjá Senu!
Þegar Björgvini Halldórssyni var afhent platínuplata með viðhöfn á besta tíma rétt fyrir jólin var hann ekki búinn að selja nema rúman helming þess fjölda eintaka sem þarf til að fá afhenta platínuplötu, samkvæmt þeim viðmiðunarmörkum sem sambandið setur öðrum listamönnum, en af einhverjum ástæðum var Senu leyft að taka sölu til Alcan með í reikninginn, en eins og menn muna keypti Alcan ógrynni af disknum og gaf hafnfirðingum í síðbúna jólagjöf. Það eru að mínu mati hæpin vinnubrögð að telja slíka sölu með, og algjörlega andstætt þeim reglum sem aðrir þurfa að fara eftir.
Það er best að taka það fram að það er alls ekki ætlun mín með þessum skrifum að kasta rýrð á Björgvin Halldórsson. Síður en svo, hann á allt gott skilið. Sjálfur keypti ég diskinn hans fyrir jólin, sjálfviljugur í einni af þeim plötubúðum sem tekið er tillit til þegar Tónlistinn er reiknaður út. Ég er einungis að benda á vinnubrögð sem mér finnst athugaverð og ófagleg.
Hvort þessi vinnubrögð megi rekja til þess að formaður Sambands hljómplötuframleiðenda var í mörg ár samstarfsmaður útgáfustjóra Senu, og vann hjá fyrirtæki sem í dag er í eigu Senu, veit ég ekki en ég veit fyrir víst að þessum sama manni er fullkunnugt um í hversu mörgum eintökum hljómplatan Á MÓTI SÓL Í 10 ÁR seldist á síðasta ári. Afhverju hann kýs að sópa þeim tölum undir borðið þegar Morgunblaðið leitar upplýsinga hjá honum veit ég hinsvegar ekki.
Kannski það hafi eitthvað með þá staðreynd að gera að síðan útgáfustjórinn vinur hans ákvað að rifta gildandi samningi milli Senu og Á móti sól, þrátt fyrir að við hefðum nýlokið við að selja plötuna FIÐRILDI í tæpum 5000 eintökum að sumri til (sem er mjög góð sumarsala), höfum við selt yfir 20,000 plötur, þvert á spádóma útgáfustjórans.
Maður spyr sig.
Tónlist | 6.5.2007 | 18:21 (breytt 6.7.2008 kl. 00:31) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er svosem að æra óstöðugan að velta sér áfram upp úr þessu máli. Ég hef lýst þeirri skoðun minni hér á síðunni að í sporum Jónínu hefði ég svo sannarlega beitt mínum áhrifum til að hjálpa tengdadóttur minni, en það er önnur saga og sýnir líklega einungis hvað ég er miklu spilltari en Jónína. Ég ætla heldur ekki að taka neina afstöðu í þessu máli, í fyrsta lagi skiptir afstaða mín ekki nokkru einasta máli, í öðru lagi þekki ég málavöxtu ekki nægjanlega og í þriðja lagi er ég orðinn leiður á því! Ég þjáist nefnilega af sama fréttaúthaldsleysinu og þorri landsmanna, en það er líklega það sem gerir það öðru fremur að verkum að hér á landi tíðkast það ekki að ráðamenn þurfi að taka afleiðingum gjörða sinna.
En hvað sem öllum málavöxtum líður finnst mér hins vegar með ólíkindum að Jónína, sem og aðrir framsóknarmenn, skuli taka það eins óstinnt upp og raun ber vitni að um þetta mál sé fjallað. Mér finnst þetta svar Þórhalls efnislega mjög gott, og er honum hjartanlega sammála um að það var full ástæða til að kanna þetta mál og fjalla um það. Ráðherrar í ríkisstjórn eru að sjálfsögðu ekki yfir gagnrýni hafnir og hljóta að verða að þola að um þá, og mál sem þeim tengjast, sé fjallað í fjölmiðlum.
![]() |
Kastljós svarar Jónínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | 3.5.2007 | 13:31 (breytt 6.7.2008 kl. 00:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekki er maður nú meiri spámaður en svo að maður taldi algjörlega útilokað að sagan gæti endurtekið sig svona rækilega. Ég verð að viðurkenna að alveg þar til Kuyt setti síðasta vítið í netið hjá Chelsea í gær var ég viss um að Chelsea myndi hafa þetta, og einhvernveginn fannst manni United líklegri áður en flautað var til leiks í kvöld.
En það breytir því ekki að 23.maí verður rosalegur úrslitaleikur, og ekki væri nú verra ef úrslitin yrðu þau sömu og fyrir tveimur árum . Þó ég voni nú heilsunnar vegna að hann verði ekki eins svakalega dramatískur, ég er hreinlega ekki viss um að ég myndi þola annan slíkan leik!
![]() |
AC Milan í úrslitaleikinn gegn Liverpool |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 2.5.2007 | 23:36 (breytt kl. 23:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ég fékk mjög snemma áhuga fyrir menningarmálum enda talsvert um listsköpun á æskuheimili mínu og listamenn af ýmsu tagi þar tíðir gestir. Einhvernveginn eins og ósjálfrátt hef ég æ síðan viljað blómlegt menningar- og listalíf í öllum sveitum og talið það öllum til hagsbóta. En það er bara alls ekki sama hvernig að málum er staðið.
Ég tel t.d. samning á borð við þennan algjörlega tilefnislausan og ekki til neins ætlaðan en að upphefja Sjálfstæðismenn hér í kjördæminu rétt fyrir kosningar. Mér er allavega mjög til efs að þessi svokallaði Menningarsamningur Suðurlands sé vel og vendilega ígrundaður og því finnst mér algjörlega ótímabært að merkja þessum málaflokki svo mikla peninga áður en grundvallarspurningum í menningarmálum er svarað.
Eins og t.d. þeirri stóru spurningu, hvað er menning? Sjálfur starfa ég t.d. að hluta til við listgrein, ef ég hef þá rétt til að nota slíkt orð yfir mína iðju, sem víðast hvar í kerfinu flokkast vart undir menningu. Lágmenningu í besta falli. Þó er það svo að popptónlist er oftast aðalkveikja þess að börn og unglingar leggja fyrir sig hljóðfæraleik, hvort heldur sem þeir á endanum leggja fyrir sig popp eða klassík, svo gripið sé til hefðbundinna skilgreininga. Í því samhengi vil ég nefna að á það hefur verið bent að ungmennum sem stunda tónlistarnám gengur betur í almennu námi en þeim sem ekki leggja slíkt fyrir sig, svo fátt eitt sé nefnt, og því er það með tónlist líkt og íþróttir að forvarnargildið er umtalsvert.
Hvað er t.d. átt við með þessari setningu: Ráðið hefur meðal annars það hlutverk að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum? Þróunarstarf í menningu já.....hvað skyldi það vera. Ætli höfundar plaggsins geti skýrt það nánar?
Nánar síðar.
![]() |
Menningarsamningur fyrir Suðurland undirritaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | 2.5.2007 | 22:49 (breytt 6.7.2008 kl. 00:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.maí er í dag, til hamingju! Taki það til sín sem eiga .
Það er sem betur fer frí á mínum vinnustað eins og svo mörgum öðrum, en það er þó lítið um frí hjá mér. Ég byrjaði að læra snemma í morgun og svo erum við félagarnir í Á móti sól að spila á fjölskylduhátíð hér á Selfossi í dag. Þannig að það er nóg að gera, verðugur er verkamaðurinn launa sinna segir einhversstaðar. Ekki kvarta ég, nenni því í það minnsta ekki í dag.
Ég er nú kannski að gera dálítið mikið úr því hvað ég er duglegur. Aðalástæðan fyrir því hvað ég byrjaði snemma að læra er að sjálfsögðu sú að í kvöld er stórleikur í sjónvarpinu sem ég má alls ekki missa af. Liverpool - Chelsea í undanúrslitum meistaradeildarinnar! Ég held að það væri við hæfi, svona á degi verkalýðsins, að mínir menn frá hinni miklu verkamannaborg Liverpool færu með sigur af hólmi í kvöld. Þó ég hafi reyndar ekki mikla trú á því, því miður. Enda held ég að þeir haldi ekkert upp á 1.maí, þeir eru bara með Labour day eins og kanarnir einhverntíma í haust minnir mig. Kannski er ég bara að bulla, það hefur gerst áður.
Bloggar | 1.5.2007 | 14:14 (breytt kl. 14:28) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég var að enda við að lesa ágætt viðtal við Valgeir Guðjónsson í DV þar sem hann fjallar m.a. um viðskilnað sinn við Stuðmenn. Í sjálfu sér er fátt sem kemur á óvart í viðtalinu, nema kannski það að Valgeir er nú í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn! En það er nú önnur saga.
Ég fór að velta því fyrir mér, og hef svosem oft gert það áður, hvað góður hópur getur komið mörgu til leiðar og hvernig sumar samsetningar ólíks fólks verða að kraumandi suðupotti þar sem snilldin flæðir upp um alla veggi, að því er virðist áreynslulaust.
Hugsið ykkur t.d. hvað Bítlarnir hafa verið magnaður hópur. Það er alveg óhætt að fullyrða að jafnvel þó það sé óumræðilega Lennon og McCartney að þakka hversu stórir Bítlarnir urðu þá spilaði hver einasti meðlimur mikilvægt hlutverk. Á einhvern óútskýranlegan hátt skapaðist stemmning sem leiddi af sér hvern gullmolann af öðrum. Undir dyggri stjórn George Martin auðvitað. Jafnvel á lokametrunum þegar menn töluðust vart við sömdu Paul og John frábær lög, hvor í sínu lagi. Það var eins og það væri nóg að tilheyra hópnum, jafnvel þó menn vildu lítið með hann hafa á stundum.
Síðan hættu Bítlarnir og gullmolunum fækkaði verulega svo ekki sé meira sagt. Auðvitað sömdu þeir eitt og eitt frábært lag, eins og Imagine Lennons, og áttu velgengni að fagna en lagasmíðarnar standast að mínu viti fæstar samanburð við það besta sem þeir gerðu með Bítlunum.
Án þess að ég ætli að líkja Stuðmönnum við Bítlana þá er ég þeirrar skoðunar að samsetning þess hóps hafi verið mjög heppileg. Ég varð mikill aðdáandi Stuðmanna þegar Með allt á hreinu kom út og eignaðist skömmu síðar allt efni sem þeir höfðu gefið út. Þar innan um eru mörg vinsælustu og bestu dægurlög sem hafa verið samin á Íslandi.
Valgeir Guðjónsson stofnaði Stuðmenn ásamt Jakobi Magnússyni og líklega er ekki á neinn hallað þó því sé haldið fram að þeir tveir hafi verið "aðal" . Ekki einu sinni sjálfan Egil Ólafsson sem er þó líklega uppáhaldssöngvarinn minn þegar allt er talið, og flinkur tónlistarmaður. En rétt eins og í Bítlunum hefur hópurinn allt að segja. Stuðmenn voru einfaldlega á þeim árum sem Valgeir var þar innanborðs frábær hópur á öllum sviðum popptónlistar. Þar voru saman komnir afburða hljóðfæraleikarar, söngvarar, húmoristar, upptökumenn, útsetjarar, texta- og lagasmiðir og afraksturinn varð hver smellurinn á fætur öðrum.
Spilverk þjóðanna og Þursaflokkurinn vitna einnig um frjósemi þessa hóps og í því sambandi er kannski vert að upphefja Egil aðeins með því að benda á að hann er sá eini úr þessum hópi sem var í öllum böndunum þremur . Svo einhverrar sanngirni sé gætt.
Þegar Valgeir síðan segir skilið við félaga sína sumarið 1988 hallar verulega undan fæti. Þau eru a.m.k. teljandi á fingrum annarrar handar Stuðmannalögin sem eitthvað er varið í sem komið hafa út eftir brotthvarf Valgeirs. Og alveg á sama hátt hefur ekki margt skemmtilegt komið frá Valgeiri heldur. Þetta er altént mín skoðun, en eflaust eru einhverjir ósammála mér. Það er hinsvegar alltaf jafn gaman að sjá Stuðmenn spila, það hefur ekkert breyst að betri tónleikasveit fyrirfinnst varla.
Þó þetta séu nú ekki merkileg vísindi hjá mér, og engin sannindi nema bara fyrir sjálfan mig, þá finnst mér þetta samt dálítið athyglisvert. Ég á mér ekki marga uppáhalds lagahöfunda íslenska en Valgeir er klárlega einn þeirra - ég nefni yfirleitt hann, Jóhann Helgason eða Magnús Eiríksson ef ég er spurður. Nokkur af þeim lögum sem ég hef sérstakt dálæti á eru líka eftir Jakob Magnússon. Ekkert þeirra er samið eftir 1988.
Tónlist | 29.4.2007 | 18:48 (breytt 6.7.2008 kl. 00:33) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ég er að læra, en í fjarska heyri ég í sjónvarpinu. Silfur Egils er í gangi, og ég laumast fram og sé Valgerði, Össur, Ögmund og Guðlaug Þór takast á um Impregilo, Bechtel, norskar varnir o.fl.
Ég hef yfirleitt mjög gaman af Ögmundi í svona þáttum, hann er vel inní málum, rökfastur og fylginn sér. En verandi vinstri maður verður honum oft á í messunni og glutrar oft niður góðri stöðu sem hann hefur komið sér í. Gott dæmi um það var þegar hann var kominn með Valgerði og Guðlaug alveg út í horn í umræðum um hið alræmda Impregilo, með dyggri aðstoð Össurar, en skaut svo yfir markið með ómarkvissum og ótímabærum skotum á Bechtel! Eflaust hefur hann haft mikið til síns máls, en þetta voru klárlega taktísk mistök í stöðunni og urðu til þess að Valgerður sneri málum sér í hag. Því miður.
Rétt seinna fór hann mikinn í gagnrýni sinni á það að norski herinn eigi að sjá um varnir landsins. Að sama skapi hefur hann eflaust mikið til síns máls í þeim efnum, ekki hef ég hundsvit á því svo mikið er víst , en fólki flestu er held ég bara nákvæmlega sama um þessa hluti. Finnst það í versta falli fyndið að norðmenn eigi að verja okkur, og það á friðartímum! Þessvegna voru þessi læti Ögmundar yfir norskum vörnum ótímabær og ekki til þess fallin að auka honum og flokki hans fylgi. Því miður.
Gengur vonandi betur næst........
Stjórnmál og samfélag | 29.4.2007 | 14:28 (breytt 6.7.2008 kl. 00:34) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
Tenglar
Hótel
- Hotel Club
- Trip Advisor Umsagnir um hótel o.fl.
- Totalstay Oft góð tilboð
- GTA Hotels Oft góð tilboð
Eitt og annað
Ýmislegt
- Íslenska Beygingar o.þ.h.
- Deacon Blue
- You Tube
Það sem skiptir máli
- KHÍ
- U2
- Madness Þeir eru enn að!
- Liverpool Opinber síða félagsins
- Liverpool Liverpool klúbburinn á Íslandi
- Á móti sól
Flugfélög
Ferðalög o.þ.h.
- British Airways Flug til London Gatwick
- SAS Flug til Osló og Stokkhólms
- Icelandair
- Iceland Express
- German Wings Flug til Kölnar/Bonn o.fl.
England
Ferðalög o.þ.h.
- Flugvellir Flugvellir í Bretlandi
- Eurostar Hraðlest til Parísar og Brussel
- Virgin Trains Lestir út á land
- The Tube Lestarkerfið í London
- London Town London
- Map 24 Vegvísun um allan heim
- Ticketmaster Miðar á tónleika o.fl.
- St.Giles Hotel Frábær staðsetning - ágætt hótel
- Late Rooms Tilboð á gistingu
- Travel Inn Traust og fjölskylduvæn hótelkeðja
Danmörk
Ferðalög o.þ.h.
- Veðrið Veðrið í DK fyrr og nú, eftir svæðum
- Alt om Köbenhavn Allt um Köben
- Min reklame Tilboð frá verslunum
- Krak Vegvísun, kort o.fl.
- Dansk Autorent Ódýr bílaleiga
- Gisting á tilboði Hótel í Danmörku - Tilboð dagsins
- Dancenter Sumarhús í Danmörku og víðar
- Sol og Strand Sumarhús í Danmörku og víðar
- Dansommer Sumarhús í Danmörku og víðar
- Novasol Sumarhús í Danmörku og víðar
- Italiano Skemmtilegur ressi í Köben
Bloggvinir
-
nkosi
-
ansiva
-
atlifannar
-
skarfur
-
agustolafur
-
amotisol
-
baldurkr
-
bbking
-
bjarnihardar
-
brandurj
-
gattin
-
binnag
-
bryndisvald
-
brynja
-
bestfyrir
-
daxarinn
-
ebbaloa
-
austurlandaegill
-
eirag
-
hjolagarpur
-
ellasprella
-
eythora
-
ea
-
fjarki
-
gesturgudjonsson
-
dullari
-
gretar-petur
-
gudni-is
-
gudbjorng
-
hugs
-
gummigisla
-
gummisteingrims
-
bitill
-
gunnarfreyr
-
nesirokk
-
rattati
-
hehau
-
hermannol
-
krakkarnir
-
nabbi69
-
swiss
-
810
-
ingimundur
-
ingvarvalgeirs
-
jakobsmagg
-
presley
-
katrinsnaeholm
-
buddha
-
larahanna
-
maggib
-
magnusvignir
-
jabbi
-
palmig
-
rungis
-
snorris
-
slembra
-
lehamzdr
-
svanurg
-
sverrir
-
saedis
-
tinnhildur
-
tommi
-
postdoc
-
doddilitli
Ágúst 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | |||||
3 | 4 | 5 | 6 | 7 | 8 | 9 |
10 | 11 | 12 | 13 | 14 | 15 | 16 |
17 | 18 | 19 | 20 | 21 | 22 | 23 |
24 | 25 | 26 | 27 | 28 | 29 | 30 |
31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar