Færsluflokkur: Bloggar

Á móti sól á Players alla helgina

áms players3


Þitt er valið

Ég ætla að tjá mig aðeins frekar um þennan nýja samning. Vissulega er hann langt frá því að vera alvondur, og raunar um margt ágætur. Skref í rétta átt a.m.k. Líklega hefði ég m.a.s. verið býsna ánægður með hann fyrir ári síðan þegar “sérfræðingar mínir í kjaramálum” (launanefnd FG og KÍ) ákváðu að bíða átekta og sjá hvort samningsstaða okkar yrði ekki betri að ári (þ.e. núna!), fremur en að sæta færis og semja þegar allt lék í lyndi í þjóðfélaginu, kampavínið seitlaði úr nýríkum munnvikunum og menn töluðu fremur í milljörðum en krónum. Við værum ágætlega sett ef við hefðum náð þessum samningi þá, værum jöfn viðmiðunarstéttum okkar núna og hefðum verið það s.l. 12-18 mánuði.

En staðan er einfaldlega ekki sú sama og fyrir ári síðan. Það vitum við öll. Forsendur kjarasamninga almennt hafa breyst, og við megum ekki gleyma því að það er ekki á nokkurn hátt okkur að kenna! Eins og Sævar vinur minn orðaði það svo ágætlega um daginn; Við tókum engan þátt í góðærinu og því frábiðjum við okkur að taka þátt í kreppunni.

Miðað við ástandið í þjóðfélaginu í dag er einfaldlega ekki með nokkru móti hægt að segja að í þessum samningi sé fólgin svo mikil kjarabót að við eigum að drífa okkur í að samþykkja hann, brosa og vera glöð. Því miður. 25 þúsund króna hækkunin sem kemur inn fljótlega verður að 12 – 13 þúsund útborguðum krónum. Hvað ætli matarverð hafi hækkað mikið að undanförnu? Að ekki sé talað um allt hitt, olía, bensín, vextir o.s.frv….Er hægt að tala um kjarabót þegar þannig árar?

Eins má segja að ýmis atriði samningsins séu óljós, t.d. hversu miklum peningum sveitarfélög eru tilbúin að veita í hinn nýja TV-eininga flokk. Mér finnst lykilatriði að það liggi fyrir áður en farið verður að íhuga hvort á að samþykkja samninginn eða fella hann.

Meðan við búum við þá sérfræðiþjónustu í kjaramálum sem við í formi félagsgjalda kaupum af KÍ, verðum við annaðhvort að sætta okkur við að vera áfram láglaunastétt, og halda áfram að reyna að narta í hælana á viðmiðunarstéttum okkar, eða að standa upp og finna okkur eitthvað annað að gera.

Okkar er valið, svo einfalt er það. 


Liverpool 1 - Riise 1

Við Sæmundur erum sammála um að það verði einhver bið á því að maður hætti að skrifa noreg með litlum staf. 

Getraun fyrir fertuga!

Eitís nostalgían sem greip mig í síðustu færslu er ástæða þessarar færslu. Ég er búinn að setja eitís lag í spilarann hér til hliðar, og spurningin er: Man einhver hvað það heitir?


Hópferð á hestamannaball í Danmörku!

Við félagarnir í Á móti sól erum að fara að spila á hestamannaballi í Danmörku laugardaginn 26.apríl. Það er í tengslum við stórt hestamannamót sem ber heitið Gangarts Cup og er haldið í Rönde, í nágrenni Århus.

Ég var að reka augun í það að Iceland Express og Hestafréttir bjóða upp á hópferð á keppnina - og ballið!

Ferðin kostar 64,900 og innifalið er flug fram og til baka, rúta frá Kaupmannahöfn á mótssvæðið - og til baka, gisting í 2 nætur (1 í Köben og 1 í Århus) og síðast en ekki síst íslensk fararstjórn, en það er enginn annar en folinn Fjölnir Þorgeirsson sem stýrir ferðinni Smile

Nánari upplýsingar eru á vef Express ferða: http://www.expressferdir.is/viewtrip.php?idt=843   


Hvergerðingar ath.

Við félagarnir í Á móti sól spilum á Players, Kópavogi, laugardaginn 19.apríl n.k. og það er gaman að segja frá því að við ætlum að hafa smá "Hveragerðisþema". Frekari dagskrá verður auglýst síðar, en það er hugsanlegt að einhverjir heimsfrægir Hvergerðingar komi fram með okkur. Svo er aldrei að vita nema Kristján Jónsson verði með sætaferðir.

Við erum að kanna möguleika á því að stofna til vinabæjasambands við Kópavog, nánar um það síðar.......


Ég vona innilega...

...að maðurinn sem fann upp á Stöðtvösporttvö sé á góðum launum

Páskatúrinn að baki

Þá er árlegur páskatúr hljómsveitarinnar afstaðinn, við spiluðum á 4 stöðum, 3 böll og eina stutta tónleika, og skemmst er frá því að segja að allt heppnaðist þetta eins vel og hægt er að óska sér. Þeir sem vilja skoða myndbönd úr túrnum og fræðast meira um hljómsveitina geta kíkt á nýja bloggsíðu okkar www.amotisol.blog.is

Gleðilega páska


Fréttir af fólki í héraði

Þó það kunni að hljóma ótrúlega þá er það nú þannig að ég er lítið fyrir að trana mér fram, jafnvel þó ég sé nokkuð öruggur um eigið ágæti og telji mig oftast hafa heilmikið fram að færa Cool

Í starfi mínu sem tónlistarmaður, og ekki síst umboðsmaður, hef ég þó þurft að venja mig á að ota mínum tota, og það hef ég í gegnum tíðina reynt að gera án þess að vera með mikil læti eða djöfulgang. Þegar mikið liggur við blæs maður þó stundum í lúðra, á nótum Einars vinar míns Bárðarsonar, en það er ekki oft.

Eitt af því sem er í mínum verkahring er að láta fjölmiðla vita þegar eitthvað markvert drífur á daga okkar í hljómsveitinni. Fyrir tæpum mánuði síðan lét ég t.d. alla fjölmiðla landsins vita af því að við værum að senda frá okkur nýtt lag, hið fyrsta í rúmt ár, og flestir þeirra létu það berast. Viku síðar sendi ég svo heldur hróðugur út boð þess efnis að lagið væri orðið hið vinsælasta á landinu. Um það var fjallað á öllum helstu prentmiðlum og að sjálfsögðu á útvarpsstöðvunum. Viku síðar áréttaði ég þessa frétt við blöðin hér í sveitinni, Sunnlenska fréttablaðið, Dagskrána og Gluggann, og lét jafnframt vita að lagið væri enn á toppnum. Tvö blaðanna birtu fréttatilkynninguna, og kann ég þeim þakkir fyrir, en eitt blaðanna hefur enn ekki látið þess getið að sunnlensk hljómsveit eigi vinsælasta lag landsins. Sem hlýtur þó að vera frétt. Í það minnsta sunnlensk frétt!

Nú er ég svo heppinn að mér getur í sjálfu sér verið nokk sama hvort þetta tiltekna blað segir frá árangri okkar eður ei, stærri fjölmiðlar hafa sagt frá þessu og hin 2 héraðsfréttablöðin líka þannig að við erum ekkert í vandræðum vegna lítils umtals, en ég velti því samt sem áður fyrir mér hvað búi að baki slíku fréttamati. Er það ekki frétt þegar hljómsveit af svæðinu gerir það gott? Er það minni frétt en að það hafi verið metþátttaka á foreldrafundi á Selfossi eða að fjórir nýsveinar hafi verið verðlaunaðir fyrir góðan árangur í námi, svo dæmi séu tekin?

Það sem gerir þetta kannski enn furðulegra er að þetta ágæta blað hefur í gegnum tíðina sýnt okkur talsverðan áhuga. Nú er það svo að við höfum nokkrum sinnum átt því láni að fagna að eiga vinsælasta lag landsins, og ýmislegt annað markvert hefur gengið á hjá okkur á rúmlega 10 ára ferli, og svo að segja alltaf hefur verið um það fjallað í héraðsfréttablöðunum. Ekki síst þessu tiltekna blaði. 

Mér dettur helst í hug að tengja þessa stefnubreytingu því að við tókum ekki tilboði frá blaðinu í auglýsingu fyrir réttadansleik fyrir margt löngu. Síðan þá hefur að ég held ekki birst stafkrókur um okkur!

Tilviljun?


Nýtt lag

Við félagarnir sendum frá okkur nýtt lag í vikunni. Lagið heitir Árin og það er hægt að hlusta á brot úr því í spilaranum hér til hliðar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband