Ekki gott að gera.....

Við félagi minn áttum eftirfarandi samtal um daginn: 

Félagi: „Jæja, hvað á svo að kjósa í vor?”  

Ég: „Ég veit það ekki, svei mér þá. Ég held ég hafi aldrei átt eins erfitt með að taka ákvörðun.”   

F: „Já þú meinar”  

Ég: „En þú, hvað ætlar þú að kjósa?”  

F: „Ég held að ég kjósi Geir Haarde”  

Ég (lítillega brugðið): „Jahá! Hví þá?”  

F: „Mér finnst hann bara traustur kall”  

Ég: „Ok. Þú gerir þér grein fyrir því að með því að kjósa Geir ertu um leið að kjósa Björn Bjarnason og Birgi Ármannsson”  

F: „Já”  

Ég: „Og í sjálfu sér líka Guðlaug Þór, Sigurð Kára, Pétur Blöndal og fleiri menn sem ég veit að þú ert ekki par hrifinn af. Að maður tali nú ekki um Árna Johnsen, Sturlu Böðvars og Kjartan Ólafsson!”  

F: (hugsi): „Já”  

Ég: „Ég hefði nú haldið að þú myndir frekar kjósa Samfylkinguna”  

F: „Ég get bara ekki hugsað mér að kjósa Ingibjörgu. Ég fyrirgef henni aldrei svikin við borgina á sínum  tíma!”  

Ég: „Afhverju kýstu þá ekki bara Össur, það myndi nú spæla hana ef hann fengi meira fylgi en hún. Í hvoru kjördæminu kýstu annars?”  

F: „Ég kýs í suður, þar sem Ingibjörg og Geir eru”  

Ég: „Andskotinn”   

 


Berlín - lið fyrir lið

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um Berlín. Þar er vissulega margt að skoða og sagan drýpur svo að segja af hverju strái, en þar er líka ýmislegt sem er býsna óspennandi.  

Ferðin var í heildina mjög fín, við fengum frábært veður, vorum á frábæru hóteli og sáum fullt af skemmtilegum hlutum. Samt sem áður er ég ekki viss um að ég komi aftur til borgarinnar. Það var eitt og annað sem mér fannst ekki heillandi, t.d. fólkið, sem ég hafði fyrirfram ímyndað mér að væri kurteist og þægilegt. Það var þvert á móti upp til hópa fremur þungbúið og óhresst, en það sem kom mér kannski mest á óvart var hversu lélegir þjóðverjarnir eru í ensku. Og líka hvað þeim finnst furðulegt að fólk skuli ekki kunna þetta fremur óaðlaðandi mál þeirra. Ef maður hváði hækkuðu þeir bara róminn – þýzkan er ekki ómþýðari á háum styrk, síður en svo. Í kjánaskap mínum gleymdi ég að læra málið áður en ég fór í ferðina og það gerði það að verkum að ég var meira og minna í pati og bendingum allan tímann. 

En eins og ég segi þá var margt gott og margt ekki svo gott þannig að ég ákvað að kryfja upplifun mína á vísindalegan hátt. 

Berlín – lið fyrir lið: 

Flugvöllurinn: Schönefeld Airport - í austurhlutanum: Það var fínt að lenda þar, enda byggingin frekar lítil svo það gekk fljótt og vel að komast í gegn. Hinsvegar var allt annað mál að fljúga þaðan. Við flugum heim á mánudagskvöldi og byggingin var algjörlega troðfull. Það eru tveir matsölustaðir á svæðinu, annar var svo yfirfullur að manni datt ekki í hug að reyna að komast þar inn en hinn var Burger King, án sæta, þar sem maður borðaði á endanum kvöldmatinn – standandi upp á endann. Allt gekk frekar hægt fyrir sig og svo sem ekki neitt jákvætt um flugstöðina að segja.  Ég tók eftir því að reykingar voru hvergi leyfðar, og það var ekki annað á vörðunum að sjá en að þeir væru afar stoltir af því. Reykingabannið plagaði mig ekki neitt, enda hef ég aldrei náð tökum á reykingum, en ég get ekki annað en vorkennt fólki sem þarf að gjöra svo vel að vera reyklaust í þá 2-3 tíma sem flestir þurfa að eyða á svona flugstöðvum til viðbótar við flugið sjálft sem tekur nú í flestum tilvikum einhverja klukkutíma. 

Það er gaman að segja frá því, svona í framhjáhlaupi, að það voru helmingi fleiri starfsmenn að innrita fólk í flug til Mombasa en til Íslands, kannski enn ein staðfestingin á að við erum nú engin stórþjóð. 

Hótelið: Park Inn – á Alexanderplatz í austurhlutanum: Það var frábært í alla staði; herbergið snyrtilegt, rúmið þægilegt og útsýnið frábært (við vorum á 29.hæð og Sæmi á 34.!) og öll aðstaða á hótelinu til fyrirmyndar. Það eru 5-6 veitingastaðir, heilsulind, spilavíti og verslunarmiðstöð í hótelbyggingunni, nokkrir veitingastaðir í nokkurra metra fjarlægð og lestir, sporvagnar og strætisvagnar allt um kring.  

Maturinn: Að mestu vel yfir meðallagi. Við fengum dýrindis steik á Kula Karma í Hackescher Markt og ágæta pizzu á 12 Apostel, svo dæmi séu tekin. Reyndar fær þessi 12 Apostel staður frábæra dóma víðast hvar á hinu þýzka interneti – bestu pizzur í þýzkalandi o.s.frv......sé það rétt eiga þeir bágt. Ég hef fengið betri pizzur í Osló. 

Einn eftirminnilegasti staðurinn sem við fórum á heitir Sixties og er Amerískur restaurant, að útlitinu til eins og klipptur út úr American Graffitti, Grease og svoleiðis myndum, en innvolsið ekki alveg í lagi. Í fyrsta lagi var eingöngu 70´s og 80´s músik í græjunum, í það minnsta hljómaði ekki eitt einasta sixtís lag þennan tíma sem við dvöldum þarna. Í öðru lagi kunnu þjónarnir ekki ensku, sem stingur dálítið í stúf á amerískri matstofu og í þriðja lagi voru hamborgararnir úr kjötfarsi. Ég hefði reyndar getað sagt mér það sjálfur því ég gekk í svipaða gildru í Hamborg fyrir rúmu ári síðan. Svona er maður nú vitlaus. 

Búðirnar: Ég er nú svo mikil kerling að mér finnst gaman að versla, í útlöndum vel að merkja. Það helgast nú aðallega af því að í útlöndum getur maður oft keypt hluti sem ekki eru fáanlegir hér á landi, og eins er verðlagið yfirleitt mun hagstæðara en hér heima. Sérstaklega á fatnaði. Því var ekki til að dreifa í Berlín, allavega ekki í þeim búðum sem við skoðuðum. Maður get gert góð kaup á leikföngum og skóm en þar með var það nú eiginlega upptalið. Að vísu er sá fatnaður sem þessir upp til hópa smekklausu, súrkálsétandi svínakjötsfíklar framleiða og hanna fyrir sjálfa sig fremur ódýr, en um leið og fötin eru farin að líkjast flíkum fyrir venjulegt fólk og bera merki sem maður hefur séð bregða fyrir áður kosta herlegheitin svipað og í Kópavogi og Kringlunni.

En búðirnar eru flottar og úrvalið gott. KaDeWe er mjög flott, sérstaklega fiskborðið, og Galeria Kaufhaus sem er í sömu byggingu og hótelið er mjög flott moll líka. Á Ku Damm er líka fullt af flottum búðum sem gaman er að skoða, en það er ekki til mikils að gera viðskipti þar. Sjálfsagt er hægt að finna ódýrari búðir, en við gerðum það allavega ekki í þessari ferð. 

Sagan og menningin: Ég get nú lítið tjáð mig um menninguna að öðru leyti en því að þýskt sjónvarp er skelfilega leiðinlegt. Þó maður horfi fram hjá því að þeir talsetja allt efni þá var dagskráin hrútleiðinleg á öllum stöðvum, allan tímann.

Öðru máli gegnir um söguna. Við fórum í dæmigerða skoðunarferð í opnum vagni á sunnudeginum og það var ljómandi skemmtilegt. Margt merkilegt að sjá. Ég var alveg heillaður af safninu við Checkpoint Charlie, en þar má t.a.m. sjá ýmsa hluti sem fólk faldi sig í á leiðinni yfir landamærin milli austurs og vesturs og lesa um ótrúlegar flóttatilraunir. Sumar heppnuðust, aðrar ekki. 

Næturlífið: Ég er afskaplega lítið fyrir næturlíf í sjálfu sér, en okkur þótti tilhlýðilegt að kíkja á stemmninguna. Sem var svo að segja engin. Maður eftir mann stóð á því fastar en fótunum að á Friedrichsstrasse, eða the lively Friedrichsstrasse eins og þeir sumir kölluðu þessa ágætu götu, væri svo sannarlega líf í tuskunum. Það var nú öðru nær, það margreyndum við.

Skemmtilegasta hverfið sem við skoðuðum var Hackescher markt, sem er reyndar í grennd við Friedrichsstrasse. Þar eru fínir veitingastaðir og ágætis stemmning. Eins var gaman að koma á Potsdamer platz, en þess má geta að þar er hægt að sjá amerískar bíómyndir sem þjóðverjinn hefur ekki komist í að talsetja - í Sony center sem er mögnuð bygging. Eflaust er ágætis næturlíf einhversstaðar í borginni, en við hittum ekki á það í þetta sinn a.m.k. 

Þá er þessari vísindalegu yfirferð lokið og enn er ég litlu nær um hvernig mér líkar við Berlín. Líklega þarf ég að heimsækja borgina aftur, betur undirbúinn, og sjá hvort hún heillar mig ekki upp úr skónum. Það vantaði herslumuninn í þetta sinn.

Auf wiedersehen  


Samfylkingin á sínum venjulegu villigötum

Ég held að tímasetning skipti stóru máli í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur. Þessvegna finnst mér það til marks um seinheppni Samfylkingarinnar að hafa sett Evrópumálin á oddinn fyrir síðustu kosningar, þegar enginn nennti að pæla í svoleiðis hlutum, en sett ESB aðild í salt fyrir þessar kosningar þegar greinilegt er að meirihluti þjóðarinnar virðist þeirrar skoðunar að fyrr eða síðar munum við ganga Evrópusambandinu á hönd. Hvað sem tautar eða raular. Því þá ekki að gera það strax?

Ekki nóg með að fólk sé tilbúið til að hugsa slíka hugsun til enda um þessar mundir heldur held ég líka að alveg burtséð frá því hvort það er skynsamlegt eða ekki að ganga í ESB á þessum tímapunkti sé fremur auðvelt að telja fólki trú um að hagsmunum okkar sé betur borgið í ESB en utan þess. Til að mynda get ég sjálfur alveg ímyndað mér að hlutir sem fara mjög í taugarnar á mér um þessar mundir s.s. óstöðugleiki krónunnar, hátt vaxtastig, sukkið á bönkunum, stimpil- og lántökugjöld, verðtrygging og þessháttar ófögnuður hverfi eins og dögg fyrir sólu þegar inn í ESB verður komið. Hver vill ekki taka húsnæðislán í Deutsche Bank með 3% vöxtum, án verðtryggingar og stimpilgjalda og án milligöngu íslensku bankanna? Nú veit ég svosem ekkert um það hvort það verður hægt ef við göngum í ESB, en mér finnst það ekki ótrúlegt. Það er í það minnsta mín tilfinning. 

Ég leyfi mér nefnilega að fullyrða að stór hluti kjósenda fer eftir tilfinningunni einni saman. Hvaða tilfinningu þeir hafa fyrir þessum eða hinum frambjóðandanum eða þessu eða hinu kosningamálinu. Það fólk sem setur sig inní hvert einasta mál sem það telur að skipti máli og tekur ákvörðun um hver hreppir atkvæði þess á grundvelli slíkrar yfirlegu er að ég held í miklum minnihluta. Ég leyfi mér ennfremur að fullyrða að ekki nokkur einasti maður getur sagt til um hvort rétt eða rangt sé að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það er ekki fyrir nokkurn lifandi mann að setja sig inní alla þá hluti sem þar spila inní þannig að á endanum mun tilfinningin ein ráða. 

Í því sambandi bendi ég á að sá mæti maður Hjörleifur Guttormsson var eini íslenski stjórnmálamaðurinn sem las EES samninginn og allt það sem honum tilheyrði á sínum tíma, og fyrir það bar ég mikla virðingu fyrir honum. Að þeim yfirlestri loknum tók hann síðan þá ákvörðun að greiða atkvæði gegn inngöngu Íslands í EES, en nú rúmum 10 árum síðar virðast allir stjórnmálamenn sammála um að inngangan í EES hafi verið gæfuspor hið mesta. Þannig að það er greinilega ekki nóg að vera duglegur að lesaBlush

Ef ég stjórnaði kosningabaráttu Samfylkingarinnar myndi ég setja ESB á oddinn, það er altént mín tilfinning að fólk sé opið og móttækilegt fyrir slíkum vangaveltum og Samfylkingin myndi hala inn talsvert af atkvæðum þeirra kjósenda sem enn eru óákveðnir, sem eru í grófum dráttum svo að segja allir nema þau tæpu 40% sem alltaf kjósa Sjálfstæðisflokkinn.     

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins kjósa flokkinn vegna þess að þeir trúa því að hann sé fullkominn. Fylgi flokksins er yfirleitt mjög stöðugt og kjósendur virðast trúa og treysta flokksforystunni í algjörri blindni, líkt og tíðkast í sértrúarsöfnuðum. Höfuðstöðvar flokksins prýða flennistórar myndir af fyrrverandi og núverandi foringjum flokksins, líkt og var í Sovét forðum og allir trúa því að þeir séu mestir og bestir og engum dettur í hug að til sé grænna gras. Aðrir kjósendur fara ýmist eftir skynsemi sinni eða tilfinningu.

 


mbl.is Flestir telja að Ísland verði komið í ESB árið 2050
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þinn innri maður er í raun......?

Hér getur maður kannað hvaða Evrópubúum maður á mesta samleið með.

http://www.blogthings.com/whosyourinnereuropeanquiz/  

Ágætt fyrir mig að vita að ég hugsa eins og Hollendingur, skemmtileg tilviljun því Holland er einmitt næst á dagskránni hjá mérSmile


Sorglegt

Gunnar í Krossinum kom með skýringu á þessu athæfi á Bylgjunni í morgun: Bandaríkjamenn ákváðu fyrir einhverju síðan að hætta að hafa boðorðin 10 sýnileg í skólunum. Fram að því hafði tyggjó verið stærsta vandamálið í skólunum, en eftir það skothríðir af þessu tagi! Og maðurinn talaði af sannfæringu, rétt eins og hann tryði þessu.................
mbl.is Steig inn í skólastofuna og hóf skothríð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð hjálpi þér

Svona sprengingar eru greinilega daglegt brauð hjá þeim þarna niðurfrá. Ef ég vissi ekki betur myndi ég halda, af myndunum að dæma, að blessaður maðurinn væri bara að hnerraWink


mbl.is Þing Íraks kom saman til sérstaks fundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til Berlínar

Við Auður ætlum að skella okkur til Berlínar um helgina. Þangað hef ég ekki komið síðan á tímum kalda stríðsins þegar ég, ungur kommúnistasonurinn, var sendur í sumarbúðir ráðstjórnarríkjanna í Austur-Þýzkalandi eins og ég hef áður komið að.

Ég hlakka til að eyða afmælisdeginum á Berlin-Alexanderplatz, en þar í grennd gat maður keypt amerískt gos og sælgæti gegn framvísum vestrænna skilríkja - sem var óneitanlega talsvert betra fæði en krana-teið, kardimommudroparnir og maltbrauðið sem boðið var upp á í sumarbúðunum.

Meira um það síðar.....góða helgi.


VG að fatast flugið

Í skoðanakönnun sem birt er í blaðinu í dag mælist fylgi Vinstri-grænna u.þ.b. 15%. Það er talsvert minna en aðrar spár hafa sýnt. Ég varð náttúrlega dálítið montinn þegar ég rak augun í þetta því ég spáði því hér á síðunni fyrir nokkru síðan að VG fengi 14-15% fylgi í kosningunum. Cool (Besserwizzer).

Mér hefur sjálfum dottið í hug að kjósa VG, enda er ég oft sammála því sem flokksmenn leggja til, og víst er að ýmis stefnumál VG eiga mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Fólk minnist einarðrar afstöðu flokksins í Íraksmálinu, Kárahnjúkamálinu, Öryrkjamálinu o.s.frv. og getur vel hugsað sér að kjósa yfir sig svo harðskeytt lið með svo sterkan baráttumann í frontinum sem Steingrímur J. óneitanlega er. Enda þjóðin hrifin af sterkum foringjum.

En það er bara svo margt sem mælir ekki með því að kjósa VG að ég held að það komi ekki til að ég geri það - þá loks er dagurinn kemur.

Þeir eru kannski hraustastir og baráttuglaðastir, en það er bara ekki nóg. Ég nenni eiginlega ekki að telja upp hvað það er sem mér líkar síst við í málflutningi Steingríms og félaga, en ég geri það klárlega síðar.

En, það er dálítið sniðugt að þegar Steingrímur J. fór að þvaðra um netlöggu og kynjakvóta í sjónvarpinu um daginn var eins og þjóðin vaknaði af dái. Það rifjaðist skyndilega upp fyrir henni hvílíkur forræðishyggjumaður Steingrímur í rauninni er. Hann var á t.d. móti bjórnum á sínum tíma. Það voru allir búnir að gleyma því maður!

Svo má líka spyrja sig hvort flokkurinn sé líklegur til að setjast í ríkisstjórn. VG unnu stórsigur í síðustu sveitastjórnarkosningum en sitja nær allsstaðar í minnihluta. Þessi þvermóðska VG minnir um margt á Kvennalistann sáluga sem vann stórsigur í kosningum 1987 en gat ekki hugsað sér að taka þátt í stjórnarsamstarfi. Ef Vinstri-grænir temja sér ekki aðeins meiri sveigjanleika er hætta á að örlög flokksins verði hin sömu og Kvennalistans. Því miður. 


mbl.is Dregur úr fylgi VG samkvæmt könnun Blaðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn af framsókn - og enn með litlum staf

Samkvæmt þessari könnun kemst Bjarni Harðarson ekki inn á þing, en hann er einn örfárra framsóknarmanna sem ég vil sjá á þingi. En jafnvel þó hann sé ágætur maður, fjölskylduvinur o.s.frv...sem og reyndar Guðni Ágústsson, þá get ég ekki með nokkru móti réttlætt það fyrir sjálfum mér að kjósa framsókn. Ég á þó frekar von á því að þeir sæki á, enda hefð fyrir því. Og hver veit nema Bjarni hafi það að lokum, það kæmi mér allavega ekki á óvart. 

Bjarni skrifar annars ágæta grein í Sunnlenska fréttablaðið í dag þar sem hann reynir að telja sunnlenskum kjósendum trú um að framsókn sé forsenda farsællar landsstjórnar. Hmmmm.....hvar hefur Bjarni verið undanfarin 12 ár?

Reyndar víkur Bjarni að því í upphafi greinarinnar að vissulega hafi framsókn verið í ríkisstjórn undanfarin 12 ár, en það sé nú eiginlega ekki alveg að marka því þar sem Sjálfstæðisflokkurinn sé svo miklu stærri hafi hann í raun ráðið mestu.

 Í sambandi við það væri gaman að fá svör frá Bjarna varðandi 2 lítil atriði:

1. Var það vegna þingstyrks Sjálfstæðisflokksins sem Ísland var sett á lista hinna staðföstu þjóða?

2. Var það vegna þingstyrks Sjálfstæðisflokksins sem Halldór Ásgrímsson þáverandi utanríkisráðherra sá ekki ástæðu til að aðhafast neitt þegar hann fékk í hendurnar kolsvarta skýrslu um málefni Byrgisins.  

Og svona mætti lengi telja............Halo

Bjarni segir líka í sinni ágætu grein að fari svo að framsóknarflokkurinn komi mjög illa út úr kosningunum megi búast við því að hann setjist ekki í ríkisstjórn. Það er nefnilega það! Ef það er eitthvað sem er alveg víst í íslenskum stjórnmálum þá er það sú staðreynd að framsóknarflokkurinn mun alltaf setjast í ríkisstjórn, hafi hann til þess hið minnsta tækifæri. 

Ég leyfi mér að enda þennan framsóknarpistil á orðum sem ég skrifaði fyrir um 2 mánuðum síðan, en þau eru enn í fullu gildi:

Auðvitað fagna ég því almennt að framsóknarflokkurinn skuli tapa fylgi, þó ég geti vel hugsað mér að sjá Bjarna Harðar á þingi, en ég veit hinsvegar af fenginni reynslu að það er því miður ekki tímabært að fagna strax.

Ég þekki nefnilega nokkuð marga framsóknarmenn og flestir eiga þeir það sammerkt að tuða og býsnast heldur hraustlega yfir því sem fer í taugarnar á þeim en gera ekki nokkurn skapaðan hlut í því. Gagnslausar liðleskjur myndi einhver segja.

Þegar Gallup eða Fréttablaðið hringir og spyr hvern þeir ætli að kjósa fussa þeir og sveia, skjóta eitthvað út í loftið, t.d. VG, eða segja ekki neitt, en á kjördag koma þeir allir skríðandi heim rétt eins og kona sem hefur dvalið í  kvennaathvarfinu en kemur aftur heim, til þess eins að láta lemja sig á nýjan leik. 

Nú skora ég á alla framsóknarmenn að standa einu sinni við stóru orðin og kjósa eitthvað annað - eða skila auðu. Flokkurinn á ekkert annað skilið. Það er honum sjálfum fyrir bestu að fá aðeins á baukinn, rétt eins og ofbeldismanninum sem endurheimtir ekki konuna sína úr kvennaathvarfinu eða alkanum sem ekki er hjálpað upp í rúm heldur er látinn sofa á eldhúsgólfinu í eigin skítalykt. Að afloknum slíkum kosningum er hugsanlega hægt að endurvekja tiltrú þjóðarinnar á framsókn. Altént mun ég þá fyrst íhuga að rita framsókn með stóru effi.    


mbl.is Stóraukið fylgi VG í Suðurkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýst ákvörðun

Jæja þá er kosningaslagurinn að fara á fullt. Merkilegt að ekkert skuli bóla á 2. manni á lista Sjálfstæðisflokksins hér í kjördæminuGlottandi

Nú dynja líka á manni slagorðin og frasarnir.

Formaður framsóknar sagði í gær að það þyrfti að gera rammaáætlun um gerð heildaráætlunar....svo missti ég þráðinn!

Ingibjörg Sólrún og fleiri tala sífellt um að taka upplýstar ákvarðanir. Hvernig ákvarðanir eru það? Eru þær eitthvað öðruvísi.........?

Að maður tali svo ekki um hallærislegasta frasann - korter fyrir kosningar. Úff!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband