Færsluflokkur: Bloggar
Eins og ég hef oft sagt áður þá kaus ég Samfylkinguna í síðustu kosningum til Alþingis. Ástæðan var sú að ég taldi að ég ætti mesta samleið með þeim flokki, eftir að hafa kynnt mér rækilega stefnumál allra flokka og velt málunum fyrir mér fram og til baka. Svo gerist það, eins og ég hef líka tjáð mig um, að flokkurinn kemst í ríkisstjórn og þá var allt í einu engin þörf á því að framfylgja stefnumálunum. Þeim var svo að segja öllum ýtt til hliðar í geðshræringunni og ofsakætinni sem fylgdi því að fá nú loksins að vera með í að stjórna. Flokkurinn flaut síðan steinsofandi alla leið út í skurð með Sjálfstæðisflokknum og vaknaði í raun ekki fyrr en upp úr áramótum þegar menn áttuðu sig loksins á því að það væri engin leið að vinna með Geir Haarde og félögum. Það var náttúrlega allt of seint til að maður geti með góðu móti fyrirgefið sofandaháttinn.
Nú er Samfylkingin komin í stjórn með VG og ekki er annað að sjá en forysta flokksins sé býsna ánægð með það samstarf. Báðir formennirnir hafa t.a.m. lýst áhuga á því að halda samstarfinu áfram eftir kosningar.
En ýmsir hafa sett spurningamerki við hið góða samkomulag sem sagt er að ríki milli flokkanna, því eins og allir vita er stefnuskrá þeirra um margt ólík. Til dæmis er himinn og haf milli afstöðu þeirra til ESB.
Að vísu held ég að ég fari rétt með að VG hafi samþykkt fyrir sitt leyti að leggja það mál í dóm þjóðarinnar, ég man ekki hversu fast var að orði kveðið þegar sú yfirlýsing var sett fram, en hvað sem því líður þá er það allavega skref í rétta átt. Sé það rétt munað hjá mér.
Þrátt fyrir yfirlýsingar af þessu tagi verður að segjast eins og er að það er afskaplega ólíklegt að Evrópumálin komist á dagskrá fyrir alvöru á næsta kjörtímabili, komist VG til valda. Málflutningur þungavigtarmanna í flokknum, Ögmundar, Jóns Bjarnasonar og fleiri, hefur allavega verið með þeim hætti að undanförnu að það kæmi mér a.m.k. mjög á óvart ef þeir settu ESB málin í forgang .
Síðast í dag las ég grein eftir frambjóðanda VG í Suðurkjördæmi sem fann ESB allt til foráttu og lagði á það ríka áherslu að kjósendur yrðu að gera veg VG sem mestan í næstu kosningum - til að varna því að gengið yrði til aðildarviðræðna við ESB! Hreint ótrúlegur málflutingur, en samt sem áður ansi skýr skilaboð til forystu Samfylkingarinnar.
Samfylkingin hlýtur að mínu viti að þurfa að velta öðrum samstarfskostum en VG fyrir sér, sé það enn helsta stefnumál flokksins að sækja um aðild að ESB. Ef flokkurinn ætlar sér að leggja það til hliðar eftir kosningar, rétt eins og síðast, þá vil ég gjarnan fá að vita það fyrir 25. apríl.
Bloggar | 16.4.2009 | 19:01 (breytt kl. 19:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Flokkarnir hafa komið fram með ýmsar hugmyndir til lausnar á vanda heimilanna, en það virðist enginn vera sammála um hvað hægt sé að gera.
20% hugmynd framsóknar er mjög freistandi, en ég hef engar forsendur til að leggja mat á hvort hún er fær. Ég held samt að það sé vert að skoða hana gaumgæfilega, því það er mjög margt sem mælir með því að hún sé farin.
Það sem mér finnst best við þá hugmynd er að þar er viðurkennt að einhver hluti af skuldum bankanna við erlenda lánadrottna verði, eða hafi þegar verið afskrifaður.
Tökum sem dæmi að ég hafi tekið erlent lán hjá Glitni upp á eina milljón. Milljónina hefur Glitnir væntanlega tekið að láni frá einhverjum erlendum banka. Síðan gerist það að Glitnir fer á hausinn. Erlendi bankinn sem lánaði Glitni fer þá í biðröð lánadrottna og fær úr þrotabúi Glitnis brot af því sem Glitnir skuldar honum - jafnvel ekki neitt. Eins og gengur og gerist þegar um gjaldþrot/yfirtöku er að ræða. Það eru því allnokkrar líkur á því að Glitnir muni ekki borga erlenda lánveitandanum þessa milljón - nema hugsanlega að hluta til. Það hindrar hinsvegar Nýja Glitni ekki í því að halda áfram að rukka mig um þennan pening, sem er aukinheldur orðin að tveimur milljónum vegna gengishrunsins! Þannig að Glitnir græðir hreinlega á ástandinu. Ég sé enga glóru í þessu.
Aðrar "lausnir" sem haldið hefur verið á lofti eru t.a.m. lausnir bankanna fyrir þá sem hafa tekið lán í erlendri mynt. Lausnin felst í raun í þvi að lengja í lánunum og jafna þannig greiðslurnar. Það er í sjálfu sér gott og blessað, en í því felst engin niðurfelling. Á endanum borgar lántakandinn alla sína skuld við bankann, og gott betur, óháð því hvað bankinn hefur fengið mikla niðurfellingu sinna skulda.
Þetta er kallað lausn og ríkistjórnin hefur meira að segja mært þetta fyrirkomulag.
Um leið hefur ríkisstjórnin bent á að þessi leið sé sambærileg þeirri "lausn" sem þeim sem skulduðu verðtryggð lán var boðið upp á í haust. Sú leið var semsagt að lengja í lánunum, en útreikningar sýndu svo ekki var um villst að þegar upp var staðið var sú leið dýrari almenningi, þannig að ef fólk hafði bolmagn til að halda áfram að borga af sínum lánum þá var það umtalsvert ódýrara. Það er því alveg á mörkunum að hægt sé að tala um lausnir í þessum tilvikum. Það er ekki verið að hjálpa neinum.
Hvort sem 20% leið framsóknar er fær eða ekki þá finnst mér að það verði að viðurkennast að einhver hluti skulda íslensku bankanna hefur verið, eða mun verða, afskrifaður. Almenningur á að njóta þess.
En það er svo merkilegt að ef einhver minnist á að hjálpa skuldurum þá rís allt kerfið upp á afturlappirnar. Meira að segja verkalýðshreyfingin, sem á nú fyrst og fremst að vera málsvari hins almenna launamanns - miklu frekar en þeirra örfáu Íslendinga sem eru í þeirri stöðu að eiga meira en þeir skulda.
Það sem ég er að reyna að segja er að hér hefur skapast mjög óvenjulegt ástand. Það ástand er ekki almenningi í landinu að kenna, þrátt fyrir ýmsar aðdróttanir í þá veru. Það ástand er ekki heldur einungis falli Lehman Brothers að kenna, eins og Geir Haarde, Árni Matt. og fleiri hafa statt og stöðugt haldið fram. Hér er ástandið umtalsvert verra en í öðrum löndum vegna þess að ofan á heimskreppuna bættust áhrif gengishruns íslensku krónunnar. Á einu bretti tvöfölduðust skuldir íslenskra heimila, einungis vegna hruns krónunnar. Það ástand á sér enga hliðstæðu í nágrannalöndum okkar - og þó víðar væri leitað.
Þessvegna finnst mér alveg ótrúlegt að enginn flokkur skuli hafa komið fram með skýra stefnu í gjaldmiðilsmálum. Ég er á því að það sé algert forgangsmál að finna flöt á því. Krónan hefur verið ótrúlega þungur baggi á þjóðinni síðan ég byrjaði að fylgjast með stjórnmálum. Ég man t.d. eftir því þegar núllin tvö voru tekin af og stór hluti þjóðarinnar var arðrændur í leiðinni, en ég fullyrði að aldrei hafi krónan verið okkur dýrari en nú um stundir.
Samfylkingin hefur gefið það út að flokkurinn stefni inn í ESB. Ég er sammála því að þann kost þurfi að skoða vel og vandlega og hallast raunar að því að það gæti orðið okkur til hagsbóta þegar fram í sækir. Mér finnst allavega að við eigum að drífa í því að setjast að samningaborðinu og sjá svart á hvítu hvað er í boði. Fyrr en við höfum samningsdrög í höndunum er ekki nokkur leið að hafa vitræna skoðun á því hvort okkur er betur borgið utan eða innan ESB. En með þessari yfirlýsingu sinni má segja að Samfylkingin hafi gefið út stefnu í gjaldmiðilsmálum - einn flokka. Hvað ætla hinir flokkarnir að gera? Ég verð að segja að ég vildi gjarnan fá að vita það áður en kemur að kosningum.
Ég hef oft verið óákveðinn fyrir kosningar, en örugglega aldrei eins og núna. Það er sannast sagna enginn flokkur sem heillar mig þessa dagana. Eins og ég hef áður sagt kaus ég Samfylkinguna í síðustu kosningum og sá flokkur brást algjörlega, fór steinsofandi í gegnum allt stjórnarsamstarfið - í sæluvímu yfir því að fá loksins að vera með.
Ég get ekki sagt að ég sé spenntur fyrir því að kjósa flokkinn aftur, sérstaklega þar sem mér hugnast samstarfið við VG ekkert sérstaklega vel ef ég á að segja alveg eins og er.
VG er um margt ágætis flokkur og innan um má finna þar afskaplega hæft fólk. En það er ekki hægt að segja að flokkurinn hafi komið fram með mikið af ferskum og snjöllum hugmyndum. Formaðurinn segir að eina leiðin út úr kreppunni sé niðurskurður og skattahækkanir og varaformaðurinn orðar þetta enn betur; launalækkanir og skattahækkanir er það sem koma skal. Þetta er vissulega heiðarlegt útspil því að auðvitað þarf að skera niður og jafnvel hækka skatta við þessar aðstæður, en ég held þó að skattahækkanir þær sem VG boðar muni skila afskaplega litlu þegar upp verður staðið. Það er ekki það sem hagkerfi okkar þarf til að komast í gang aftur.
Þó er, eins og ég segi, innan um í flokknum ágætis fólk. Ég gæti sem kjósandi í Suðurkjördæmi t.d. alveg hugsað mér að kjósa Atla Gíslason, en hið meingallaða kosningakerfi sem við búum við gerir það að verkum að um leið væri ég að veita Kolbrúnu Halldórsdóttur, Jóni Bjarnasyni og fleirum brautargengi. Það kæri ég mig bara engan veginn um.
Bloggar | 15.4.2009 | 14:21 (breytt kl. 16:18) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggar | 14.4.2009 | 15:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 14.4.2009 | 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Landsfundir stjórnmálaflokka eru stórmerkileg fyrirbæri. Mér hefur alltaf fundist það sem maður hefur séð af landsfundum Sjálfstæðisflokksins alveg gríðarlega hálfvitalegt, meira í ætt við samkomur í trúarsöfnuðum en í hreyfingum sem eiga að hafa eitthvað stjórn landsins að gera, og ekki var að sjá að stemminingin hefði verið gáfulegri á landsfundi Samfylkingarinnar; Jóhanna öskraði yfir salinn að hún ætlaði sér að standa í eldlínunni lengi enn og gömlu kommarnir tóku bylgju af fögnuði!
Fólk í þessum flokkum má þó eiga það að það er vel yfir meðallagi kurteist. Árni Páll Árnason og Dagur B. Eggertsson mættu t.d. í viðtal á Rúv eftir að Dagur hafði burstað hinn í varaformannsslagnum og Árni sagðist vera himinlifandi með Dag, hefði m.a.s. kosið hann hefði hann ekki sjálfur asnast til að bjóða sig fram. Og ekki nóg með það, heldur horfði hann mjög góðlátlega á nýja varaformanninn meðan hann reyndi að svara einfaldri spurningu um Evrópumál en flæktist svo í frösunum að fréttamaðurinn skildi hvorki upp né niður. Eftir þrjár tilraunir til að reyna að fá Dag til að svara spurningunni gafst fréttamaðurinn upp, en Árni hélt andlitinu allan tímann. Greinilega góður vinur, og með afbrigðum vel upp alinn.
Það slær samt ekkert út kurteisi Sjálfstæðismanna. Þegar Davíð hafði lokið við að hrauna yfir mann og annan risu þeir úr sætum og örguðu og góluðu í geðshræringu. Fagnaðarlætin voru síðan engu minni daginn eftir þegar Geir sté í pontu og sagði að Davíð hefði bullað tóma steypu í téðri ræðu!
Þetta verður ekki toppað
Bloggar | 30.3.2009 | 21:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
....sér tvær leiðir til að draga úr halla ríkissjóðs á næstu árum: Niðurskurður og skattahækkanir.
Honum dettur ekkert annað ráð í hug til að auka tekjurnar.
Kemur í sjálfu sér ekki á óvart.3% skattur á 500 þúsund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 23.3.2009 | 14:19 (breytt kl. 14:19) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þetta er nú meira grínið .
Við erum eins og kúgaðar kerlingar á leið heim úr Kvennaathvarfinu, sem hlaupa rakleiðis í fang fulla kallinum sínum eftir að hann hefur barið þær og misþyrmt.
Sveiattan!
Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 5.3.2009 | 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Ég hef áður tjáð mig um það hversu einstaklega dapurlegur þingmannafloti Sunnlendinga er. Til glöggvunar skal rifjað upp að meðal þeirra sem kosnir voru á þing fyrir kjördæmið í síðustu kosningum eru Árni Johnsen, Árni Mathiesen, Bjarni Harðarson og Kjartan Ólafsson!
Mér varð á að skipta yfir á útsendingu frá Alþingi rétt í þessu og varð þar vitni að einstaklega glæsilegum málflutningi eins þessara snillinga, Kjartans Ólafssonar. Hann afhjúpaði ævintýralega fáfræði sína og óskynsemi þegar hann af einhverjum algjörlega óskiljanlegum ástæðum ákvað að blanda sér í umræður um kvótakerfið!
Fyrir Alþingi liggur semsagt þingsályktunartillaga um innköllun aflaheimilda, þ.e. að þjóðin eignist aftur fiskinn í sjónum. Fiskinn sem útgerðarmenn fengu á silfurfati fyrir 25 árum og hafa gengið þannig um, m.a. vegna brottkasts og annars óþverra sem óhjákvæmilega hefur fylgt kvótakerfinu, að aflaheimildir í dag eru helmingi minni en fyrir 25 árum þegar þetta frábæra kerfi var sett á - að sögn til þess að vernda og efla fiskistofnana!
Innlegg Kjartans í þessa umræðu var á þá leið að nú væri nóg komið af kúvendingum í sjávarútvegi, hinir góðu og duglegu útgerðarmenn sem við Íslendingar værum svo heppnir að eiga að gætu ekki lifað við það að endalaust væri verið að gjörbreyta fiskveiðistjórnunarkerfinu!
Í andsvari var Kjartani vinsamlega bent á að kvótakerfið hefði verið sett á 1984 og síðan þá hefðu engar kúvendingar orðið! Hann steig þá aftur í pontu og minntist ekki frekar á hvað blessaðir útgerðarmennirnir ættu bágt að það væri alltaf verið að breyta hjá þeim, en lagði í staðinn ríka áherslu á það að nú væri alls ekki rétti tíminn til að hlaupa til og gjörbreyta öllu; kvótakerfinu, kosningalögunum, stjórnarskránni o.s.frv....!!!
Kjartan er semsagt mjög ánægður með hvernig hlutirnir fúnkera hér á Íslandi.
Hann gat þess einnig í ræðu sinni að við ættum stærsta þjóðgarð í Evrópu......ég er enn að reyna að átta mig á því hvað það kemur kvótakerfinu við.
Bloggar | 2.3.2009 | 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vonandi verður engum kálað - því löggæslan er ströng (Þorsteinn Eggertsson, 1975).
Skrýtnar áherslur hjá þeim þarna á Suðurnesjunum .
Bloggar | 27.2.2009 | 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Árni Mathiesen var spurður að því í morgun hvort hann væri að hætta í pólitík. Viðbrögð hans voru á þessa leið:
Árni: Hvaða vitleysa?"
Blaðamaður: Þetta er ekki rétt?"
Árni: Nei, nei."
Blaðamaður: Þannig að þú ert bara kokhraustur?"
Árni: Já, já."
Blaðamaður: Þetta eru ekki réttar fréttir?"
Árni: Nei, þetta eru ekki réttar fréttir."
Örfáum klukkustundum síðar tilkynnir hann síðan að hann sé hættur í pólitík! Samkvæmt mínum heimildum hafði það legið fyrir alllengi að Sjálfstæðismenn í kjördæmi Árna legðust gegn því að hann færi fram á ný. Þetta hafði honum verið tilkynnt, m.a. af kjördæmisráð flokksins. Hvers vegna hann kýs þá að ljúga þegar hann er inntur eftir þessu leiðir þá hugann að því hvort það geti verið að honum sé eðlislægt að ljúga.
Það er einnig athyglisvert að velta því fyrir sér að eini fjölmiðillinn sem segir frá þessum tvískinnungshætti Árna er Visir.is, alræmdur Baugsmiðill.
Í hvaða flokk setur þetta þá hina miðlana? Hví meta þeir það svo að þetta sé ekki fréttnæmt?
Ekki ætla ég að fara að bera blak af Baugi hér, en mér sýnist altént að það sé full þörf fyrir einhverja hinna svokölluðu Baugsmiðla.
Bloggar | 26.2.2009 | 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Tónlistarspilari
Færsluflokkar
Tenglar
Hótel
- Hotel Club
- Trip Advisor Umsagnir um hótel o.fl.
- Totalstay Oft góð tilboð
- GTA Hotels Oft góð tilboð
Eitt og annað
Ýmislegt
- Íslenska Beygingar o.þ.h.
- Deacon Blue
- You Tube
Það sem skiptir máli
- KHÍ
- U2
- Madness Þeir eru enn að!
- Liverpool Opinber síða félagsins
- Liverpool Liverpool klúbburinn á Íslandi
- Á móti sól
Flugfélög
Ferðalög o.þ.h.
- British Airways Flug til London Gatwick
- SAS Flug til Osló og Stokkhólms
- Icelandair
- Iceland Express
- German Wings Flug til Kölnar/Bonn o.fl.
England
Ferðalög o.þ.h.
- Flugvellir Flugvellir í Bretlandi
- Eurostar Hraðlest til Parísar og Brussel
- Virgin Trains Lestir út á land
- The Tube Lestarkerfið í London
- London Town London
- Map 24 Vegvísun um allan heim
- Ticketmaster Miðar á tónleika o.fl.
- St.Giles Hotel Frábær staðsetning - ágætt hótel
- Late Rooms Tilboð á gistingu
- Travel Inn Traust og fjölskylduvæn hótelkeðja
Danmörk
Ferðalög o.þ.h.
- Veðrið Veðrið í DK fyrr og nú, eftir svæðum
- Alt om Köbenhavn Allt um Köben
- Min reklame Tilboð frá verslunum
- Krak Vegvísun, kort o.fl.
- Dansk Autorent Ódýr bílaleiga
- Gisting á tilboði Hótel í Danmörku - Tilboð dagsins
- Dancenter Sumarhús í Danmörku og víðar
- Sol og Strand Sumarhús í Danmörku og víðar
- Dansommer Sumarhús í Danmörku og víðar
- Novasol Sumarhús í Danmörku og víðar
- Italiano Skemmtilegur ressi í Köben
Bloggvinir
- nkosi
- ansiva
- atlifannar
- skarfur
- agustolafur
- amotisol
- baldurkr
- bbking
- bjarnihardar
- brandurj
- gattin
- binnag
- bryndisvald
- brynja
- bestfyrir
- daxarinn
- ebbaloa
- austurlandaegill
- eirag
- hjolagarpur
- ellasprella
- eythora
- ea
- fjarki
- gesturgudjonsson
- dullari
- gretar-petur
- gudni-is
- gudbjorng
- hugs
- gummigisla
- gummisteingrims
- bitill
- gunnarfreyr
- nesirokk
- rattati
- hehau
- hermannol
- krakkarnir
- nabbi69
- swiss
- 810
- ingimundur
- ingvarvalgeirs
- jakobsmagg
- presley
- katrinsnaeholm
- buddha
- larahanna
- maggib
- magnusvignir
- jabbi
- palmig
- rungis
- snorris
- slembra
- lehamzdr
- svanurg
- sverrir
- saedis
- tinnhildur
- tommi
- postdoc
- doddilitli
Jan. 2025 | ||||||
S | M | Þ | M | F | F | L |
---|---|---|---|---|---|---|
1 | 2 | 3 | 4 | |||
5 | 6 | 7 | 8 | 9 | 10 | 11 |
12 | 13 | 14 | 15 | 16 | 17 | 18 |
19 | 20 | 21 | 22 | 23 | 24 | 25 |
26 | 27 | 28 | 29 | 30 | 31 |
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar